Mörg vöð voru á Hvítá í Borgarfirði áður en bílvegir komu til sögunnar.
Annars staðar í bókinni eru kaflar um þekktustu vöðin, Ámótsvað, Langholtsvað og Fróðastaðavað / Steinsvað. Ámótsvað var aðalvaðið á Sturlungatíma og Langholtsvað á síðari öldum. Ekkert þessara vaða er farið nú á tímum. Hvítá breytir sér oft, breytir vöðum og jafnvel farvegi, til dæmis milli Langholtsvaðs og Bakkavaðs. Vaðið við Hvítárbakka var kallað Bakkavað á söguöld og Grafarvað í Sturlungu. Það er í gömlum og þornuðum farvegi Hvítár norðan Hvítárbakka og Bæjar. Það vað notuðu Þórður kakali og Kolbeinn ungi árið 1242, þegar Kolbeinn elti Þórð vestur Mýrar.
Vöðin í Hvítá eru einkum þessi, talið frá ósum árinnar. Þrælavað við Þræley á ármótum Hvítár og Norðurár, Bakkavað / Grófarvað við Hvítárbakka, Haugsvað / Haugsendavað / Langholtsvað norður af Bæ og Langholti, Ámótsvað við mót Hvítár og Reykjadalsár, Klettsvað við Klett rétt ofan Ámótsstaðavaðs, Fróðastaðavað / Steinsvað sunnan Fróðastaða, Bjarnavað austan til við Háafell, Snagavað við Sámsstaðafjárhúsin, Bjarnastaðavað neðan við Bjarnastaðatún, Nýjavað vestan við Stóra-Ás, Ásvað fyrir austan Stóra-Ás, Oddavað og Hundavað við Tungusporð. Göngubrú var á Hvítá á Sturlungaöld við Kláffoss, þar sem nú er bílabrú. Að fornu var einnig göngubrú hjá Barnafossi suður af Gilsbakka.
Um gögubrúna við Kláffoss segir í Sturlungu: “Vildi hann (Órækja), að þeir biskuparnir færu í milli með handsölum eða þeir fyndust á brúnni, en hún var mjó. Gissur kveðst eigi vilja á brúna. Þeir biskup báðu Órækju ganga yfir brúna og láta það eigi fyrir sættum standa. … Órækja vill nú hætta á að ganga suður yfir brú með ráði biskups. … Og áður Órækja gekk yfir brúna, töluðu þeir Gissur og Kolbeinn lengi, og eftir það gengu þeir til flokka sinna. Órækja gekk yfir brúna með sveit manna. Svarthöfði Dufgusson gekk eigi lengra en að brúarsporðinum og latti Órækju að ganga. En er þeir komu yfir ána og viku upp frá brúnni, þá hlaupa þeir Gissur og Ormur fyrir brúarsporðinn með allan flokk sinn, og var þá enginn kostur að fara vestur yfir ána. … Sigvarður biskup sendi nú Gissur biskupsson til nafna síns að vita, hverju þetta gegnir. Gissur svarar nú skjótt, kveðst nú vilja ráða sumum skildögum, kveðst vilja sættast við Órækju og með því einu efni, að hann gerði einn um mál þeirra öll og til skildar utanferðir þeirra Órækju og Sturlu … Biskuparnir og Brandur ábóti bregðast mjög reiðir við þetta og kalla hin mestu svik við sig ger … Gissur svaraði svo, kvað á öllu meiri mein sjá en þessu.”
? km
Borgarfjörður-Mýrar
Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Tryggvi Már Ingvarsson 2001 og Sturlunga