Eftir nokkrar vikur tekur nýr forstjóri við Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins. Þau skipti eru tilhlökkunarefni, því að núna er úrval léttra vína í Ríkinu sumpart tilviljanakennt, sumpart ömurlegt og sumpart beinlínis grunsamlegt. Ástandið er slíkt, að breytingar geta eingöngu orðið til bóta.
Fyrir hálfu ári birti ég hér í blaðinu nokkrar greinar um létt vín, bæði hvít og rauð. Í lokagreininni birtist listi yfir nokkur vín, sem ég taldi vera drykkjarhæf af þeim, sem þá voru fáanleg. Því miður varð birtingin til þess, að vínin seldust mörg hver upp. Sum hafa ekki sézt síðan.
Að sumu leyti getur þetta stafað af, að innkaup Ríkisins eru afar föst ís skorðum og taka lítið tillit til breytinga á markaði. Tölva fyrirtækisins virðist halda áfram að kaupa sömu vín í svipuðu magni, þótt neyzluvenjur breytist. Einnig bjóða tvö dæmi mér í grun, að reynt sé að lauma inn lakari vínum undir yfirvarpi annarra, sem hafa fengið góðar viðtökur.
“Hang” fyrir “Berg”
Bezta hvítvínið var þá Senheimer RosenBERG Kabinett 1983, fékk 7,5 í einkunn. Það seldist upp nokkrum dögum eftir birtingu greinarinnar og hefur síðan ekki fengizt. Snemma í vetur kom svo til sögunnar hvítvínið Senheimer RosenHANG Kabinett 1983 selt undir númeri og nafni gamla vínsins og á verði þess.
Rosenberg og Rosenhang er alls ekki sami hluturinn. Fyrra nafnið táknar einn allra bezta vínakur hreppsins eða þorpsins Senheim í Móseldal, en síðara nafnið er samheiti lélegustu vínakra þessa hrepps. Að selja Rosenhang undir nafninu Rosenberg eru hrein vörusvik, fölsun staðreynda.
Í blindri prófun fékk nýkomna vínið 6 í einkunn. Það er að vísu tiltölulega frambærilegt við hinar sérkennilega lélegu aðstæður í einokuninni hér á landi, en samt mikil breyting til hins verra frá einkunninni 7,5, sem fyrra vínið fékk, einnig í blindri prófun.
Til bóta er, að annað vín frá Móseldal, Graacher Himmelreich Spätlese 1982 hefur í vetur bragðazt betur en sending af árganginum 1983, sem var á boðstólum í fyrrasumar. Þá fékk árgangurinn 1983 ekki nema 5,5 í einkunn í blindri prófun, en í síðara skiptið hlaut árgangurinn 7,5 í einkunn eða hæst allra hvítvína í Ríkinu.
Ekki geta þetta þó talizt jöfn skipti, því að þetta vín kostar 410 krónur á flöskuna, en hitt, sem áður var Rosenberg og nú er Rosenhang, kostar 270 krónur. Hin sérdeilis góðu kaup, sem áður voru í Rosenberg, eru ekki núna í Himmelreich.
Af sanngirnisástæðum verður þó að taka fram, að í Graacher Himmelreich eru góð kaup í samanburði við annað hvítvínsframboð Ríkisins. Þar eru til mörg dýrari hvítvín.
Hættan er svo sú, að nú seljist vínið upp, þegar þetta birtist. Þá verður fyrst langt hlé. Síðan kemur hugsanlega vetrarsending af þessu viðkvæma víni, sem engan veginn þolir, að hitastig umhverfisins fari niður fyrir frostmark. En það er einmitt eitt einkenna Ríkisins að láta eyðileggja létt vín í vetrarflutningum milli landa.
Annað slys eða önnur vörusvik hafa orðið í framboði Ríkisins. Í stað Wormser Liebfrauenstift Spätlese 1983 frá Rínardal er nú komið Wormser Liebfrauenstift QbA 1984. Þetta er sitt hvor varan, því að Spätlese er sérstök útgáfa af náttúrulegu víni, en QbA er sykurblandað vín, eins konar brugg, sem framleitt er í erfiðum vínárum í Þýzkalandi.
Í blindri prófun í fyrrasumar fékk fyrrnefnda vínið 7 í einkunn. Í hliðstæðri prófun í vetur fékk hið síðarnefnda 6,5, sem er út af fyrir sig sæmilegt, en þó lægri tala. Í stað víns, sem var nálægt mörkum þess að vera eðalvín, er nú komið fremur hversdagslegt vín.
Sítrónuvín með fiski
Fleira hefur gerzt í framboði Ríkisins á hvítvínum. Komið er til sögunnar franskt vín frá ósum Loire. Það er af tegundinni Muscadet de Sevre et Maine og heitir Chateau du Cléray 1984. Þetta er virtur búgarður með sögufrægu herrasetri og er á vínsvæði, sem er afar fjölbreytt og hefur hingað til skort fulltrúa í Ríkinu.
Muscadet er hressandi sjávarréttavín, allt að því skarpt, oftast framleitt “sur lie”, sem þýðir, að því er rennt án síu úr tunnu á flösku í marz eða apríl eftir uppskeru. Vínið, sem hingað er komið, er þessarar tegundar. Aðferðin bindur koltvísýring í víninu og gefur því frísklegt og jafnvel sítrónulegt bragð.
Chateau du Cléray er ekta sítrónuvín af þessu tagi og fékk 6,5 í einkunn í blindri prófun í vetur. Það er frambærileg einkunn og kemur víninu í hóp nokkurra hvítvína, sem deila þriðja sætinu í töflunni, sem fylgir þessari grein. Til gamans má geta þess, að þetta er sama einkunnin, sem þetta vín fékk í prófun franska tímaritsins Gault-Millau í október í vetur. Þar lenti það í fjórða sæti þeirra Muscadet-vína, sem prófuð voru.
Hins vegar er sá galli á gjöf Njarðar, að vínið kostar í Ríkinu heilar 450 krónur á flöskuna, sem er hlutfallslega dýrt. Í Frakklandi kostar það hins vegar um 100 krónur í vínbúðum.
Að öðru leyti en því, sem segir frá hér að framan, er ástandið svipað á toppi hvítvína í Ríkinu. Gewürztraminer frá Alsace, 330 krónur, fékk aftur 7 í einkunn og heldur öðru sæti. Sveitungur þess frá Alsace, Riesling Hugel 1984, 350 krónur, hefur bætzt í hóp þeirra vína, sem fengu 6,5 í einkunn. Þar var fyrir og er enn Kremser Edelfräulein 1983 frá Austurríki, 290 krónur, örugglega laust við frostlög.
Með 6 í einkunn eru nú eins og í fyrra 230 króna Ellerer Engelströpfchen QbA, sem þá var frá 1982 og nú frá 1984, 290 króna Kallstadter Kobnert QbA 1983 og 320 króna Bernkasteler Schlossberg QbA, sem nýlega var enn frá 1982. Niður í þennan lágmarksflokk hafa fallið Senheimer Rosenhang, sem fyrr var sagt frá, og Hochheimer Daubhaus, sem enn er af árgangi 1982, en hefur komið í lakari sendingu. Bæði þessi vín kosta 270 krónur.
Fleiri hvítvín hafa bætzt í hópinn hjá Ríkinu, öll lítils eða einskis virði. Þau eru öll frönsk. Monsieur de Luze, sem fékk 4,5 í einkunn, Lion d’Or, sem fékk 5, Bordeaux-vínið Maitre d’Estournel 1983, sem einnig náði 5 og loks hið hræðilega Domaine de la Renard frá héraðinu Ruilly með 3 í einkunn. Flest eru þau vín án árgangs og sum án öruggs uppruna.
Í þessum blindu prófunum staðfestist í framhjáhlaupi enn einu sinni, að Pouilly-Fuisse stendur ekki undir 780 króna verði á flösku. Vínið með þessu kunna nafni fékk að þessu sinni aðeins 4 í einkunn.
11 nothæf – 60 ónothæf
Með þessari grein birtist ný skrá yfir beztu hvítvín Ríkisins, að viðbættu einu áfengislausu hvítvíni, sem er nánast frambærilegt. Einkunnin 7,5 táknar, að vínið sé í lægsta flokki eðalvína. Einkunnin 7 táknar, að vínið mundi sóma sér sem mjög gott vín hússins. Einkunnin 6,5 táknar, að það mundi geta talizt frekar gott húsvín. Einkunnin 6 táknar svo, að það sé sæmilega drykkjarhæft.
Aðeins eitt þeirra hefur þann kost að vera til á hálfflöskum og hentar því vel fólki, sem vill fá sér örlítið bragð af hvítvíni með forrrétti úr ríki sjávarins, þótt það stefni að raðvíni með kjötrétti á eftir. Það er Riesling Hugel á 200 krónur hálfflaskan. Raunar er hart, að einungis skuli vera til eitt drykkjarhæft hvítvín í hálfum flöskum hér á landi.
Í heilum flöskum teljast ellefu hvítvín Ríkisins vera í slíkum flokki, – vera sæmileg drykkjarhæf eða skárri. Hin, sem ekki einu sinni ná því að vera sæmilega drykkjarhæf og eru sum hver meira eða minna óhæf til drykkjar, eru hvorki fleiri né færri en 60 talsins.
Þess vegna er full ástæða til að binda vonir við nýjan forstjóra.
Jónas Kristjánsson
Beztu hvítvínin
Stig Verð Nafn
7,5
410 Graacher Himmelreich Spätlese 1982
7
330 Gewürztraminer
6,5 290 Kremser Edelfräulein 19183
350 Riesling Hugel 1984
350 Wormser Liebfrauenstift QbA 1984
450 Chateau du Cléray 1984
6
230 Ellerer Engelströpfchen QbA 1984
270 Hochheimer Daubhaus Kabinett 1983
270 Senheimer Rosenhang Kabinett 1983
290 Kallstadter Kobnert QbA 1983
320 Bernkasteler Schlossberg QbA 1982
5,5
165 Weisslack (áfengislaust)
DV