Fólk er ekki á einu máli um, hversu þungir dómar eigi að vera. Algengast er, að kvartað sé um, að of vægt sé tekið á afbrotum. Refsingar séu of lágar, enda liggi niðurstöður dómstóla oft í lægri jaðri svigrúmsins, sem löggjafarvaldið hefur markað í lögum frá Alþingi.
Hafa verður í huga, að það er ekki hlutverk refsinga að lækna afbrotamenn. Dómstólar og fangelsi eiga ekki að leika hlutverk sálfræðinga, geðlækna eða meðferðarfulltrúa. Slíkt leiðir þessar stofnanir í gíslingu afbrotamanna, sem verðu fljótt meðferðarsérfræðingar.
Algengasta orsök afbrota hér á landi er neyzla vímuefna, einkum áfengis, en einnig læknalyfja og ólöglegra fíkniefna. Sumir hallast að því að segja: “Jón greyið, hann var fullur”, rétt eins og stjórnleysi áfengisneyzlunnar losi mann undan ábyrgð á gerðum sínum.
Menn bera áfram ábyrgð á sjálfum sér, þótt þeir hafi misst stjórn á sér, til dæmis vegna ættgengrar fíknar, sem þeir ráða ekki við og mundu ekki ráða við, hversu viljasterkir, sem þeir væru. Reynt er að bjóða þeim meðferð, en það breytir ekki hlutverki refsinga.
Ekki er heldur hlutverk refsinga að hefnast á þeim, sem trufla gangverkið í þjóðfélaginu, þótt slíkt sé heit ósk margra þeirra, sem verða fyrir barðinu á afbrotamönnum. Við erum komin fram úr Gamla testamentinu og heimtum ekki einu sinni tönn fyrir tönn.
Þegar fyrst var farið að skrá lagabálka, þótti eðlilegt að vana kynferðisglæpamenn, handhöggva þjófa og hálshöggva ofbeldismenn. Þetta tíðkast ekki lengur. Enn eimir þó eftir af þeirri hugsun, að markmið refsinga sé að fæla aðra frá því að feta í fótspor afbrotamanna.
Fátt bendir til, að lengd eða harka refsinga fæli fólk frá afbrotum, allra sízt í þjóðfélagi, þar sem meirihluti afbrota er framinn af ungum körlum, sem hafa misst stjórn á sér af völdum löglegrar áfengisneyzlu. Við fækkum ekki glæpamönnum með því að herða dóma.
Raunverulegt hlutverk refsinga er fyrst og fremst að losa þjóðfélagið undan þjáningunni af umgengni við síbrotamenn. Með refsingum er verið að taka þá úr umferð í samræmi við það grundvallarhlutverk ríkisins að gæta lífs og lima borgaranna, öryggis og eigna þeirra.
Í mörgum tilvikum eldast afbrotin af mönnum, en í öðrum tilvikum ekki. Afbrot fylgja gjarna ungum karlmönnum, sem ekki eru búnir að festa ráð sitt. Sumir þeirra vaxa aldrei upp úr rugli sínu. Í báðum tilvikum ber ríkinu að sjá um, að þeir skaði ekki aðra.
Þess vegna ber að taka vægt á fyrsta afbroti og hækka gjaldskrána síðan, þegar afbrotunum fjölgar og fara að lokum upp í efri jaðar heimilda um refsingar. Mikilvægt er, að refsing komi fljótt eftir fyrsta brot, en menn safni ekki upp hundrað afbrotum fyrir fyrstu afplánun.
Jafn mikilvægt er, að dómstólar veiti ekki neins konar magnafslætti af afbrotum, til dæmis með því að slengja mörgum afbrotamálum í einn pakka og líta á þau sameiginlega sem eitt brot. Slíkt hvetur afbrotamenn til að vera sem afkastamestir á sem stytztum tíma.
Ekki þýðir að fórna höndum og haga sér eins og refsingar séu tilgangslausar, þegar menn gerast síbrotamenn. Ríkinu ber skylda til að taka slíka menn úr umferð og því ber ekki síður skylda til að taka þá úr umferð ævilangt, ef þeir hætta ekki afbrotaferli sínum.
Tilgangur ríkisins er að gæta öryggis borgaranna og gangverksins í þjóðfélaginu. Refsingar eiga að miðast við það og fela því hvorki í sér hefnd né lækningu.
Jónas Kristjánsson
DV