Hvorki víkingar né riddarar

Greinar

Í fornöld ferðuðust Íslendingar mikið um landið og köstuðu miklu af grjóti í bardögum. Þannig er Sturlungasaga og Íslendingasögur í hnotskurn, skrifaðar á þrettándu öld. Með öðrum orðum má orða þetta þannig, að forfeðurnir hafi verið góðir hestaferðamenn, en lélegir riddarar og víkingar.

Þá höfðu lengi verið miðaldir í Evrópu, víkingar voru úr sögunni, en riddarar fóru milli mikilfenglegra kastala og háðu krossferðir, þar sem blóð rann í straumum um Jerúsalem. Þess á milli æfðu þeir sig í burtreiðum. Ekkert bendir til, að yfirstétt Íslands hafi tekið þátt í riddaramennskunni.

Í orrustum þess tíma í Evrópu var mikið barizt á hestbaki. Menn áttu stóra hesta, sem gátu borið þungvopnaða riddara, er munduðu lensur. Minni háttar bardagamenn voru bogmenn, sem gátu gert riddurum skráveifu. Hvorugu virðist vera til að dreifa í bardögum, sem lýst er í samtímasögu Sturlungu.

Sturlungar voru lélegir herfræðingar og kunnu ekki að skipa liði. Andstæðingarnir voru litlu betri. Eftir lýsingum að dæma voru bardagar þess tíma aðallega einstaklingsframtak fótgangandi manna. Forfeður okkar gátu ekki barizt á baki og áttu í erfiðleikum, ef þeir komust ekki af baki í fyrirsát.

Merkilegt er, að bardagahefðir og stríðsrekstur í Evrópu skuli ekki hafa flutzt hingað. Þótt höfðingjar hafi verið hér fátækari en annars staðar, hefðu þeir samt átt að hafa ráð á að koma sér upp fámennu liði riddara og bogmanna og senda syni sína til að læra herstjórnarlist Evrópumanna.

Hins vegar voru höfðingjar Sturlungaaldar feiknarlega duglegir við að ferðast. Þeir eltu hver annan yfir heiðar að vetrarlagi og riðu ár á tæpu vaði holdvotir í frosti. Þeir hafa verið afar þolnir ferðamenn og ónæmir fyrir vosbúð, hafa sennilega treyst mest á hnausþykkan lopa í ferðaföt.

Eini stórbardaginn á sjó átti ekkert skylt við víkinga, heldur hlóðu menn skip sín grjóti og köstuðu. Frægari er þindarlaus þolreið Þórðar kakala og Kolbeins unga í frosti að vetrarlagi. Þar voru hvorki víkingar eða riddarar á ferð, heldur þolgóðir bændur, sem þjösnuðust um heiðar og sanda.

Sögur af þessu fólki virðast skrifaðar í öðrum heimi en sögur af ófriði í Evrópu. Bændasynir skrifuðu um bændasyni, en hvorki um víkinga né riddara, þeir voru ekki hér á landi.

DV