Hvort ræða skuli

Greinar

Dæmigert fyrir íslenzka stjórnmálaumræðu er, að undanfarna daga hefur mjög verið deilt um, hvort ræða skuli um hugsanlega aðild Íslands að Evrópubandalaginu eða ekki. Umræðan snýst að íslenzkri hefð meira um formsatriði en innihald þessa mikilvæga máls.

Á Alþingi er rætt um, hvort hugleiðingar um aðild að Evrópubandalaginu séu innanríkismál eða utanríkismál á þessu stigi og hvort utanríkisráðherra hafi farið á svig við stjórnarstefnuna með því að ræða þetta viðkvæmnismál í nýrri skýrslu sinni um utanríkismál.

Inn í umræðuna fléttast hugleiðingar um, hvort rétt sé að máta flík áður en hún sé keypt eða hvort yfirhöfuð sé rétt að máta flík, sem ekki standi til að kaupa. Á þessum gáfulegu nótum ramba þingmenn og flokksleiðtogar um ræðustól Alþingis fram á rauða nótt.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið lagzt gegn aðild að Evrópubandalaginu og færð að því margvísleg rök. Það er framlag til nauðsynlegrar umræðu um slíka aðild. Á sama hátt eru hugleiðingar utanríkisráðherra nauðsynlegt framlag til umræðunnar.

Auðvitað á að ræða aðild að Evrópubandalaginu, hvort sem menn telja umræðuna innan- eða utanríkismál og hvort sem menn vilja kaupa flík eða ekki kaupa flík. Umræðan um bandalagið á raunar að vera einn mikilvægasti þáttur þjóðmálaumræðunnar hér á landi.

Aðstæður eru alltaf að breytast og sömuleiðis mat á aðstæðum. Komið hefur í ljós, að nærri öll ríki Fríverzlunarsamtakanna líta á Evrópska efnahagssvæðið sem biðsal aðildar að Evrópubandalaginu. Við höfum hins vegar litið á efnahagssvæðið sem okkar endastöð.

Hver verður staða okkar, ef þróunin stefnir í þá átt, að Ísland og Lichtenstein verði ein vesturevrópskra ríkja utan við Evrópubandalagið um næstu aldamót og ef þá verði Austur-Evrópa á leið inn í bandalagið? Verður hafþjóðin frjálsari eða einangraðri en ella?

Spurningin verður áleitnari, ef Evrópubandalaginu tekst enn einu sinni að klúðra nýgerðum samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Það getur leitt til, að nærtækari verði tillögur um, að við sækjum um aðild að Evrópubandalaginu í samfloti með öðrum fyrir áramót.

Því er haldið fram, að við verðum að sækja um aðild til að komast að raun um, hvort við getum náð sómasamlegum samningi um fiskimiðin. Þar á ofan er því haldið fram í vaxandi mæli, að við höfum hingað til ofmetið hættuna á útlendum aðgangi að fiskimiðum okkar.

Sjávarútvegsráðherra Danmerkur segir, að regla Evrópubandalagsins um, að ekki megi spilla innbyrðis stöðugleika, komi í veg fyrir, að portúgölsk eða spænsk veiðiskip geti farið að blanda sér í hefðbundnar veiðar Íslendinga í 200 mílna fiskveiðilögsögunni.

Í nýútkominni prófritgerð Ketils Sigurjónssonar lögfræðings er bent á möguleika Íslendinga á neitunarvaldi í sjávarútvegsmálum innan Evrópubandalagsins; leiðir til að hindra kvótatöku útlendinga; og styrki bandalagsins til eftirlits og fiskveiðistjórnar.

Á móti ýmsum slíkum sjónarmiðum er svo bent á, að ekki sé víst, að um sé að ræða fyllilega fjárheldar girðingar, svo að notað sé orðaval formanns Framsóknarflokksins. Um þessi atriði og önnur slík þarf að fá fleiri álitsgerðir og efla umræðu innan Alþingis og utan.

Ef aðildarumsókn verður nytsamur þáttur í þessari leit, verður samt að tryggja, að hún leiði ekki til, að við rennum sjálfkrafa og óvart inn í Evrópubandalagið.

Jónas Kristjánsson

DV