Hvorugur vekur traust.

Greinar

Athyglisvert er, hversu lítinn mat stjórnarandstaðan getur gert sér úr hörmulegri meðferð ríkisstjórnarinnar og þingmanna hennar á fjármálum ríkisins á þessu ári, svo og úr ráðagerðum þessara sömu aðila um fjármál ríkis og ríkisstofnana á næsta ári.

Allir eru sammála um, að draga megi úr jafnvægisleysi ríkisbúskaparins með því að minnka útgjöldin eða auka tekjurnar eða hvort tveggja. Ennfremur vita allir, að tekjurnar má annað hvort auka með því að hækka skatta innanlands eða safna skuldum í útlöndum eða hvort tveggja.

Leiðirnar eru því þrjár, misjafnlega aðgengilegar og misjafnlega gagnlegar. Verst er hin síðastnefnda söfnun skulda í útlöndum. Öll stjórnmálaöfl eru sammála um, að skuldabyrðin gagnvart útlöndum sé þegar komin í hámark eða orðin of mikil og megi ekki aukast.

Samt hafa ríkisstjórnin og þingmenn hennar afgreitt fjárlög og lánsfjárlög, sem fela í sér töluverða aukningu skulda í útlöndum. Nýjar skuldir hins opinbera umfram endurgreiðslur eldri skulda þess munu á næsta ári nema að minnsta kosti 1600 milljónum króna.

Skuldaaukningin verður sennilega mun meiri, því að fjárlögin eru að ýmsu leyti afar götótt. Þar vantar víða töluvert upp á skuldbindingar ríkisins samkvæmt öðrum lögum. Laun eru til dæmis vanáætluð, svo og atvinnuleysisbætur, námsmannalán, sjúkratryggingar, ríkisspítalar og endurgreiðslur söluskatts til sjávarútvegs.

Stjórnarandstaðan hefur bent á þessi atriði eins og hún hefur bent á skuldaaukninguna í útlöndum. En það er ekki nóg. Til þess að vera marktæk hefði hún þurft að benda á aðrar lausnir, annað hvort aukna skatta eða niðurskurð opinberra útgjalda.

Hækkun skatta er að því leyti lakari aðgerð en niðurskurður, að hún eykur þáttöku ríkisins í spennunni, sem veldur verðbólgu og almennu jafnvægisleysi í efnahag landsins. Samt kemur hún til greina og er raunar annað atriðið, er Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur bent á. Stjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir eiga það sameiginlegt að óttast tillögur um hækkun skatta. Þeir telja ekki líklegt til vinsælda að þurfa að horfast í augu við þennan raunveruleika. Þess vegna eru skattalækkunartillögur þeirra að mestu leyti óskhyggja.

Eftir er að nefna síðustu leiðina, sem er bezt, af því að hún dregur úr spennunni í efnahagslífinu. Hún dregur úr forustunni, sem ríkið hefur haft í að kynda undir verðbólgunni. Það er að skera niður ríkisútgjöld. Þar hafa stjórn og stjórnarandstaða staðið sig illa.

Ríkisstjórnin hefur reynt að krukka í ýmsa liði, sem hún hefur lítinn áhuga á, einkum í menntum og vísindum. Hún hefur skorið niður Listasafnið, Þjóðarbókhlöðuna, Kvikmyndasjóð, Háskólann og Raunvísindastofnun um örfáa tugi milljóna. Þetta segir lítið.

Ríkisstjórnin og þingmenn hennar hafa hins vegar ekki þorað að krukka neitt að gagni í rosaliði á borð við vegagerðina og landbúnaðinn. Þessar heilögu kýr fá að halda sínu og jafnvel að auka hlut sinn á sama tíma og hálft þjóðfélagið rambar á barmi beins eða óbeins gjaldþrots.

Vandi stjórnarandstöðunnar er, að hún er jafn huglaus í þessu efni og ríkisstjórnin. Framburður hennar er ekki neitt trúverðugri. Þess vegna getur hún ekki gert sér mat úr eymd ríkisstjórnarinnar í fjármálum.

Jónas Kristjánsson

DV