Hyggindi sem í hag koma

Greinar

Helzti kostur lýðræðis fram yfir önnur rekstrarform þjóðfélaga er, að það getur slampazt áfram, þótt teknar séu rangar ákvarðanir. Af því að fólk hefur frelsi til að velja, getur það snúið frá röngum ákvörðunum og átt þátt í að taka nýjar, sem að vísu eru oft líka rangar.

Lýðræðið hefur byggða í sér öryggisventla, sem koma yfirleitt í veg fyrir, að þjóðfélagið stirðni á blindgötum. Það þýðir engan veginn, að lýðræði sé gott, aðeins að það sé illskárra en önnur rekstrarform þjóðfélaga. Það er eina formið, sem ræktar nauðsynlegan sveigjanleika.

Lýðræði felur engan veginn í sér í reynd, að allir séu jafnir. Aðstaðan er misjöfn í glímu þrýstihópa og hagsmunaaðila. Peningar og þröngt skilgreindir hagsmunir ná oftast undirtökum í þessari glímu. Fjölmennir hópar vítt skilgreindra hagsmuna bíða oftast lægri hlut.

Ekki þarf lengi að fylgjast með verzlunarháttum almennings til að sjá, að fjöldi manns kann ekki að fara með frelsið til að velja. Innihald innkaupakörfu þeirra er fáránlegt frá sjónarmiðum verðs og gæða í senn. Þetta fólk hefur enga þjálfun fengið í skynsemi í vöruvali.

Fólk tekur litað sykurvatn með 35% blöndu af hreinum ávaxtasafa, þótt við hliðina sé hreinn ávaxtasafi án nokkurra aukefna á nákvæmlega sama verði. Fólk kaupir lítið stykki af súkkulaðihúðuðu togleðri, þótt hægt sé að fá heilt kíló af ferskum eplum á sama verði.

Af innkaupum margra mætti ætla, að sjónvarpssetur séu orðnar svo fyrirferðarmiklar, að þeir hafi ekki tíma til að sinna matreiðslu. Fólk kaupir tilbúna rétti eða blandaða rétti fyrir mun hærra verð en er á óblönduðum og ómatreiddum matvörum. Það lifir á dýru ruslfæði.

Þetta heimskulega atferli hættir að vera einkamál, þegar þetta sama fólk fer að abbast upp á umhverfi sitt með skoðunum sínum á því, hversu dýrt sé að lifa í landinu og hversu lágt kaupið sé. Af innkaupakörfunum að dæma er þetta fólk þvert á móti á allt of háu kaupi.

Af þessu má ráða, að byrja þarf að gera þær kröfur til skólakerfisins, að það veiti neytendafræðslu, svo að nemendur hafi meiri möguleika á að koma fram sem þroskaðir einstaklingar í skæðadrífu villandi auglýsinga og geti tekið mið af verði og gæðum í vöruvali sínu.

Kenna þarf fólki að lesa vörulýsingar á umbúðum. Kenna þarf fólki að gera greinarmun á bragði og gæðum ekta vöru og eftirlíkinga. Kenna þarf fólki að halda bókhald yfir útgjöld sín og gera á þeim samanburðarútreikninga. Skólunum ber að efla hyggindi, sem í hag koma.

Á sömu forsendum er brýnt, að skólarnir fari að kenna fólki að umgangast umheim sinn og að bjarga sér sjálft, án þess að þurfa sífellt að kalla í dýra sérfræðinga. Menn geta sparað mikla peninga á að kunna rétt handtök og tækjanotkun í viðhaldi húsa, bíla og annarra eigna.

Á sömu forsendum er brýnt, að skólarnir fari að kenna samhengið í þjóðhagfræði og heimilishagfræði, svo að fólk geti lært að þekkja yfirgang hagsmunaaðila. Ennfremur þurfa þeir að kenna rökfræði, svo að fólk geti þjálfazt í að sjá gegnum orðaleiki stjórnmálamanna.

Skólakerfið þarfnast endurnýjunar. Í stað fúsks og leikja líðandi stundar þarf að koma hagnýt kennsla, þar sem nemendum er kennt að vera neytendur, eigendur, fjárfestar, skattgreiðendur og kjósendur. Þessum mikilvægum hlutverkum fólks sinnir skólakerfið nánast ekki.

Skólakerfi lýðræðisríkis á að reyna að skila frá sér sem flestum sjálfbjarga einstaklingum, sem láta ekki draga sig á asnaeyrunum í glímu hagsmuna- og þrýstihópa.

Jónas Kristjánsson

DV