Hyrnur

Frá Naustabrekku á Rauðasandi um Hyrnur og Brekkuhlíð til Keflavíkur.

Leiðin heitir einnig Kerlingarháls og er það algengara. Hún er nálægt bjargbrúninni. Brekkuhlíð er ekki göngu- eða reiðleið. Hlíðin er ófær nema bjargfimum mönnum. Brattar ógengar skriður.

Kerlingarháls heitir eftir kerlingum tveimur, sem gengu í snjó eftir brúninni ásamt ungum dreng. Þeirri, sem á undan gekk, mislíkaði, að hin gekk í spor hennar og gekk sífellt tæpar. Að lokum sagði sú fyrri “gakk í spor mín, bölvuð”, um leið og hún steig fram af brúnni, sem hin gerði og fórust báðar. Tveir prestar í Sauðlauksdal riðu fram af brúninni á 17. öld. Annar var Björn Bjarnason 1625 við Klifhyrnu, þar sem vegurinn liggur um eftir að hann beygir til vesturs frá Brekkudölum. Hvassviðri feykti honum og hesti hans fram af. Hinn var Þorbjörn Einarsson 1673, sem reið fram af þar sem gatan er tæpust á brún Kerlingarháls.

Förum frá Naustabrekku á Rauðasandi vestur og upp sneiðinga í skriðu. Komum á brún í Brekkudölum, förum í vestur um Klifhyrnu og Hyrnur á bjargið um Hyrnur eftir brún Kerlingarháls í Keflavík. Síðan niður Systrabrekkur til Keflavíkur.

5,3 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Rauðisandur, Hnjótsheiði, Dalverpisvegur, Svarthamragil, Brúðgumaskarð, Stæðavegur, Látraheiði, Miklidalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort