Heldur betur hafði lifnað yfir Holtinu í hádeginu. Bisness-lönsar á hverju borði og þjónninn skildi íslenzku. Eins og Holtið hafi aftur uppgötvað innlenda markaðinn. Frábært var að fá þarna bezt eldaða þorsk dagsins, sem ég hef fengið um árabil. Borinn fram með stökku þorskroði, reyktu blöðrukáli og gljáðum perlulauk. Annað var gott, kræklinga- og grænmetissúpa, svo og humarsúpa með súkkulaðirjóma og kryddlegið hrossakjöt með andalifrarstöppu og selleríi. Holt keppir nú við nýju og góðu fiskréttahúsin í bænum, býður fisk dagsins í hádeginu á 2.150 krónur. Það kalla ég sko bærilegt verðlag.