ÉG BÝ Á Seltjarnarnesi. Þar grípur fólk til sinna ráða, ef það líkar ekki gangur mála. Menn fara úr flokkspólitískum álögum og taka saman höndum um að gera bæinn betri. Við mundum reka af okkur glæpamenn, ef þeir settust þar að.
ÞANNIG VAR endur fyrir löngu stofnað ofnavinafélag til að knýja bæjaryfirvöld til að taka á saltvanda í hitaveitunni. Þar var stofnað félag til að stöðva byggð á óbyggðum svæðum á Valhúsahæð og við Nesstofu og nú síðast við Valhúsaskóla.
ÖNNUR VIÐHORF eru í Vogunum, þar sem almenningur virðist ánægður með að hafa þar verst ræmda handrukkara landsins. Með oddvitann í broddi fylkingar hafa íbúarnir selt sér þá firru, að þeir hvíli þar í öruggum faðmi Annþórs Karlssonar.
TIL GLÖGGVUNAR fólki er rétt að minna á, að Annþór vílaði ekki fyrir sér að misþyrma sjúklingi í rúmi með járnröri og tók fjölskyldu í gíslingu af því að sonurinn þekkti mann, sem Annþór taldi skulda sér fé. Fyrir þetta var hann dæmdur.
MUNURINN Á þessum tveimur sveitum er, að á Seltjarnarnesi ríkir eins konar “zero tolerance”, algert umburðarleysi gagnvart vandamálum, meðan í Vogunum ríkir þetta spillta umburðarlyndi, sem stundum er talið íslenzkt þjóðareinkenni.
MÉR FINNST skelfilegt að vita til þess, að oddvitinn í Vogunum sé þingmaður Samfylkingarinnar. Ég vildi ekki bera með atkvæði mínu ábyrgð á þingsetu hans. Ég held, að hann sé firrtur með sama hætti og umburðarlyndir íbúar í Vogunum.
ÞJÓÐFÉLAG GROTNAR að innan, ef menn taka upp á því að hugsa eins og Jón Gunnarsson oddviti og sveitungar hans þeir, sem trúa, að refurinn skíti ekki við grenið, og telja sig geta flutt vandamálið í aðrar sveitir með búsetu handrukkarans.
VOGAR HAFA skipulagt lóðir fyrir aðflutta. Ég efast um, að nokkur Seltirningur vilji fara þangað í faðm Annþórs. Og mér dytti sjálfum aldrei í hug að flytja í slíkt samfélag.
DV