Í gíslingu lyfjarisa

Greinar

Komið hefur í ljós, að nýja verkjalyfið OxyContin, sem hefur á allra síðustu árum selzt fyrir meira en milljarð dollara í Bandaríkjunum með stuðningi læknastéttarinnar, hefur skæðar aukaverkanir. Það hefur átt þátt í að drepa 120 manns og dánartalan fer ört hækkandi.

Framleiðandinn borgaði heilu ráðstefnurnar fyrir lækna, allan ferðakostnað þeirra og borgaði þeim þar á ofan fyrir að kynna lyfið fyrir starfsfélögum. Læknirinn Peter Leong hefur skýrt frá, hvernig framleiðandinn reyndi hvað eftir annað að múta honum til að ávísa lyfinu.

OxyContin er angi af miklu stærra og verra máli. Samkvæmt rannsóknum dagblaðanna Washington Post og New York Times og fleiri aðila stunda fjölmörg þekktustu lyfjafyrirtæki heims glæpastarfsemi til að koma einkaleyfalyfjum á markað með sívaxandi okurprísum.

Komið hefur í ljós, að lyfjafyrirtækin kosta ekki bara lækna sem einstaklinga, heldur heilu háskólasjúkrahúsin og sérfræðitímaritin. Vegna fjárhagslegra hagsmuna er gert lítið úr aukaverkunum nýrra lyfja og dregin fjöður yfir rannsóknir, sem sýna fram á slíkar verkanir.

Dæmi hafa verið að hrannast upp um, að vísindamenn, sem hafa komizt að aukaverkunum, eru annað hvort látnir fela niðurstöður sínar eða þeir eru ofsóttir. Þeir missa störf sín hjá háskólastofnunum. Fyrirtæki í almannatengslum eru ráðin til að rægja þá skipulega.

Mestur hluti rekstrarkostnaðar lyfjarisanna fer ekki í vísindalegar rannsóknir, heldur í markaðssetningu og óbeinar mútur á borð við greiðslur til lækna, háskólasjúkrahúsa og sérfræðitímarita. Allir þessir aðilar hafa beinan hag af að dansa eftir pípu lyfjarisanna.

Nú er svo komið vestan hafs, að réttar upplýsingar um skaðsemi lyfja er miklu frekar hægt að fá í góðum dagblöðum heldur en í sérfræðiritum. Meira að segja New England Journal of Medicine hefur verið staðið að því að birta greinar lækna, sem voru á mála lyfjarisanna.

Við sjáum hluta af þessum þrýstingi hér á landi, til dæmis í áherzlunni á notkun geðbreytilyfja, sem eðli sínu samkvæmt eru fíkniefni. Þannig eru Íslendingar látnir gleypa 10.000 Prozak-töflur á hverjum morgni og þannig er Rítalíni troðið ofan í óþæg börn í skólum landsins.

Lyfjarisarnir ráða ekki aðeins ávísunum lækna og niðurstöðum rannsókna. Þau hafa mikil áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Til dæmis er fátækum ríkjum hótað viðskiptabanni, ef þau taka í notkun ódýr lyf, sem lyfjaframleiðendur telja vera stælingu á sínum lyfjum.

Þetta ástand á eftir að versna mikið vestan hafs eftir valdatöku George W. Bush sem forseta. Lyfjarisarnir áttu meiri þátt í að fjármagna kosningabaráttu hans en flestar aðrar greinar atvinnulífsins. Nú verður ríkisvaldinu beitt harðar en áður í þágu glæpamanna lyfjaiðnaðarins.

Mestu glæpir lyfjarisanna hafa beinzt gegn þjóðum þriðja heimsins. Greinaröð í Washington Post hefur fjallað um skelfilegar aðferðir, sem hafa verið færðar í stílinn í nýrri skáldsögu eftir John Le Carré og þannig komizt til skila hjá fólki, sem fylgist illa með fréttum.

Ríki og þjóðfélög þurfa að koma sér upp virkum aðferðum til að verjast áhlaupi alþjóðlegra lyfjarisa, sem reyna með hjálp lækna, rannsóknastofnana og fagtímarita að pranga inn á okkur sífellt dýrari lyfjum og telja okkur trú um, að einkaleyfalausu lyfin virki ekki eins vel.

Lyf eru sum hver margfalt dýrari en þau þurfa að vera og miklu hættulegri en af er látið. Þjóðir þurfa markvisst að forðast að lenda í vítahring eða gíslingu lyfjarisa.

Jónas Kristjánsson

DV