Í húsi föður míns…

Greinar

Hatrammar yfirlýsingar formanna Sjálfstæðisflokksins og þingflokks hans eru fyrirboði hreinsana. Gunnarsmönnum, Albertsmönnum og öðrum vafamönnum verður vísað úr áhrifastöðum flokksins og tryggum Geirsmönnum skipað til sætis.

Fyrstu skrefin á þessari braut eru yfirlýsingar miðstjórnar flokksins, fulltrúaráðsins í Reykjavík og kjördæmisráðsins á Reykjanesi. Í þeim er harmað framtak Gunnars Thoroddsen og lýst trausti á Geir Hallgrímsson flokksformann.

Hápunktur þessarar hreinsunar gæti verið sérstakur landsfundur flokksins, sem halda mætti þegar í vor. Að slíkum fundi loknum yrði Sjálfstæðisflokkurinn orðinn einhuga og einangraður klúbbur sérviturra íhaldsmanna.

Þar með verður úr sögunni hinn sérkennilegi flokkur Ólafs Thors, hið víðtæka kosningabandalag ýmiss konar íhaldsmanna og frjálslyndra, sem stefndu fremur að miklu fylgi en hreinræktaðri, hægri sinnaðri stjórnmálatrú.

Svo fjölbreyttur flokkur þurfti á að halda leiðtoga eins og Ólafi Thors. Hann var maður, sem gat sameinað stríðandi öfl. Hann var friðarhöfðingi, sem bar klæði á vopnin og hindraði klofning hans í frumeindir.

Þetta breyttist með Bjarna Benediktssyni. Hann hafði allt aðra skapgerð, hataði ævilangt ýmsa flokksbræður sína, ekki aðeins Gunnar Thoroddsen, suma kannski fyrir einn brandara. Bjarni hefði aldrei haldið flokknum lengi saman.

Hið stutta tímabil Jóhanns Hafstein markaði óbeint afturhvarf til sjónarmiða Ólafs Thors. Það var Jóhann, sem sagði: “Í húsi föður míns eru margar vistarverur” og átti við, að flokkurinn yrði að þola innri fjölbreytni.

Geir Hallgrímsson hefur aftur á móti aldrei risið upp úr hlutverki klíkuformannsins. Stjórn hans á flokknum hlaut fyrr eða síðar að enda með þeim ósköpum, að klíkan sæti ein eftir í flokknum, eftir að hafa hrakið aðra á brott.

Það er furðulegt, hvernig Geir og aðrir arftakar Bjarna Benediktssonar hafa getað ræktað með sér og magnað hatur á Gunnari Thoroddsen í nærri þrjá áratugi. Það er furðulega langur hali á lítt merkilegum forsetakosningum.

Þetta sjúklega hatur kom greinilega fram í leiðara Morgunblaðsins á þriðjudaginn. Þar varð aðsetur skrifstofu sonar Gunnars að Laugavegi 18 að hornsteini kenningarinnar um “Rúbluna”, ríkisstjórnina í “höfuðstöðvum kommúnista á Íslandi”.

Ýmislegt má að málefnasamningi stjórnar Gunnars finna, en sízt verða þar fundnir kommúnistatónar. Samningurinn er raunar líkur því, sem búast mætti við í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, án aðildar Alþýðubandalags.

Svo virðist sem framtak Gunnars hafi fallið mörgum almennum kjósendum Sjálfstæðisflokksins vel í geð og uppreisnarmenn hans hafi trausta stöðu í kjördæmum sínum. Klofningurinn er því ekki til einnar nætur.

Margir áhrifamenn flokksins utan klíkna hafa hins vegar tilhneigingu til að fylkja sér um formanninn á róstutímum. Það auðveldar Geirsmönnum að efla völd sín í stofnunum flokksins. Þannig mun flokkseigendafélagið loks ná tökum á eign sinni.

Ekki er sjáanleg nein hreyfing til sátta í deilunni um ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen. Þvert á móti er stofnað til víðtækra hreinsana í flokknum, enda vilja Geirsmenn fremur hafa mikil völd í litlum flokki en lítil völd í stórum.

Úr stórum flokki Ólafs Thors verður þá einangrað og fámennt Geirfuglasker.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið