Brotalínur íslenzkra stjórnmála eru ekki frekar milli Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka heldur en milli ýmissa annarra hugsanlegra samstarfsmynstra. Í leiðara DV í gær var rakið, hvernig raða má flokkum í ýmiss konar hópa eftir nokkrum mikilvægum málaflokkum.
Bent var á, að Alþýðuflokkurinn er að sumu leyti sér á parti vegna stefnunnar í málefnum Evrópu, fiskveiðistjórnar, landbúnaðar og neytenda. Bent var á, að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn standa sumpart saman vegna samstarfs kolkrabba og smokkfisks.
Morgunblaðið hefur bent á, að Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðubandalagið eru orðnir pólitískir nágrannar vegna eindreginnar andstöðu beggja flokka við hvers konar breytingar, einkum í Evrópusamstarfi og skipulagi fiskveiða. Þetta eru íhaldsflokkarnir tveir.
Niðurstaða DV var, að samstarf í stíl Reykjavíkurlistans muni ekki ganga upp á landsvísu, af því að það, sem sameinar flokka þess, eru einkum atriði á sviði byggðamála en sárafá á sviði landsmála. Reykjavíkursamstarfið verður ekki yfirfært með árangri á landsvísu.
Kvennalistinn efast um gildi vinstra samstarfs og spyr: Samstarf um hvað? Svarið finnst ekki, meðal annars af þeim ástæðum, sem raktar voru í leiðara DV í gær. Málefnasamstöðuna vantar. Hefðbundin flokkun í hægri og vinstri gefur ekki rétta mynd af flóknu mynstri.
Ein mælistikan í þessu dæmi er ásinn milli jafnaðar og framtaks. Önnur er ásinn milli íhalds og breytinga. Þriðja er ásinn milli verndaðra stórfyrirtækja og almenns atvinnulífs. Fjórða er ásinn milli karla og kvenna. Flokkarnir raðast margvíslega í fjölbreytt mynstur.
Því fleiri mælistikur, sem teknar eru inn í samstarfsdæmi, þeim mun líklegra er, að niðurstaðan fæli þá frá, sem eru ósammála staðsetningu samstarfsins á einhverjum ákveðnum ási. Því færri mælistikur, sem notaðar eru, þeim mun minna er í rauninni sameinazt um.
Ekki má heldur gleyma, að málefni eru aðeins ein af mörgum forsendum þess, að kjósendur skiptast milli flokka. Sumir fæðast beinlínis inn í flokka og aðrir alast upp í stuðningi við þá, á sama hátt og menn styðja íþróttafélag, af því bara að það er þeirra félag.
Loks má ekki gleyma, að margt fólk setur menn ofar málefnum. Það telur ekki vera í verkahring flokksmanna að búa til málefni handa leiðtogum til að fara eftir. Það telur þvert á móti vera í verkahring leiðtoganna að ákveða málefni handa flokksmönnum til að styðja.
Sjálfstæðisflokknum hefur gengið vel, af því að hann hefur ekki verið upptekinn af öðrum málefnum en eindregnum stuðningi við kolkrabbann og hefur í stað málefna lagt áherzlu á foringjann mikla, sem leiðir hjörðina í þá átt, sem hann ákveður sjálfur hverju sinni.
Reykjavíkurlistanum gekk vel, af því að hann bauð foringja til að safnast um. Málefni listans hefðu ekki dugað honum ein, þótt málefnasamstaða sé margfalt auðveldari á byggðavísu en landsvísu. Úrslitum í fylgi listans réð fólk, sem vill, að borgarstjóri ráði ferð.
Í þessu liggur svar við spurningunni: Samstarf um hvað? Svarið er ekki samstarf um málefni, heldur um menn. Kjósendur eru almennt ekki svo sjálfstæðir eða ákveðnir í skoðunum, að þeir kjósi samkvæmt því. Þeir kjósa flestir af vana eða af trú á foringjann sinn.
Af biblíunni má læra, að í húsi foringjans eru margar vistarverur. Þetta hefur Sjálfstæðisflokkurinn lengi vitað. Aðrir flokkar eru núna að reyna að skilja það.
Jónas Kristjánsson
DV