Í pels og á túttum

Punktar

Að þessu sinni eru heimsleikar íslenzka hestsins haldnir í Herning í Danmörku. Heimsleikarnir eru jafnan frábærir. 10.000 vinir íslenzkra hesta horfa á keppni í hinum frægu greinum, sem einkenna hestinn, tölti og skeiði. Í úrslitum verður allt snælduvitlaust á pöllunum, fylkingar stappa niður fótum og allt leikur á reiðiskjálfi. Ég hef aldrei fundið aðra eins stemmningu. Hvergi annars staðar kemur barónessa í pels úr Rolls Royce og stígur gömlum íslenzkum gúmmítúttum á jörð. Í heiminum eru þúsundir auðdætra, sem verja tugmilljónum í vináttu sína við þessa vingjarnlegu og hæfileikaríku tegund hesta. Sem veltir milljarði.