Í skýjum á FEIF-ráðstefnu

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Almenn ánægja var á 115 fulltrúa og 13 landa ráðstefnu FEIF, alþjóðasamtaka íslenzka hestsins, í Kaupmannahöfn helgina 18.-20. febrúar. Þar starfaði stjórn FEIF, formenn og stjórnarmenn aðildarsambanda og nokkrar nefndir samtakanna.

Í ræktunarnefnd var samþykkt að taka á alþjóðlegum vettvangi upp reglur gegn spatti í stóðhestum, sem teknar verða í notkun á Íslandi á þessu vori. Í sportnefnd var samþykkt að hætta að mæla mél og hætta skrá yfir leyfileg mél, en taka í staðinn upp bannlista. Þar var einnig samþykkt, að 23 mm skeifur skuli gilda í öllum aðildarlöndum. Einnig var samþykkt að fækka skeiðdómurum í minni háttar keppni. Loks var samþykkt að taka íslenzku reglurnar upp í gæðingakeppni.

Þessar breytingar verða lagðar fyrir aðalfund FEIF í haust til endanlegrar ákvörðunar og taka því gildi eftir ár. Nánar verður skýrt frá einstökum málum ráðstefnunnar í sérstökum fréttum á Eiðfaxavefnum.

Að lokinni ráðstefnunni talaði Eiðfaxi við Guðlaug Antonsson landsráðunaut, Sigurð Sæmundsson sportfulltrúa og Jón Albert Sigurbjörnsson, formann Landssambandsins og voru þeir allir nánast í skýjunum yfir árangri hennar.

FEIF ræðst á spattið

Samþykkt var í ræktunarnefnd, að öll lönd tækju upp hinar nýju reglur á Íslandi gegn spatti. Þær gera ráð fyrir, að allir stóðhestar verði röntgenmyndaðir einu sinni fyrir 5 vetra kynbótasýningu eða að öðrum kosti fyrir 6 vetra sýningu.

Allar röntgenmyndir í hverju landi verði metnar á einum stað og niðurstöðurnar síðan kynntar opinberlega. Hins vegar verður notkun spattaðra stóðhesta ekki beinlínis bönnuð.

Þessar reglur hafa þegar tekið gildi á Íslandi og munu líklega taka gildi alls staðar í heimi íslenzka hestsins á næsta ári. Fulltrúaþing FEIF á eftir að staðfesta þær í haust.

Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir hrossa, flutti erindi á ráðstefnunni um þær niðurstöður um arfgengi spatts, sem ollu því, að farið var að ráðast gegn spatti á Íslandi.

Allir dómarar jafnir

Ekki tókst í ræktunarnefnd að herða reglur um aðgengi manna að störfum kynbótadómara.

Af Íslands hálfu og fleiri aðila var því haldið fram, að einn dómaranna ætti að þurfa að hafa mikla reynslu að baki til að sýning gæti talizt fullnægjandi. Bent hafði verið á það, að í sumum löndum séu stundum haldnar sýningar, þar sem hjón eru dómarar og sýnendur, sami maður sé einn daginn sýningarstjóri, annan daginn dómari og þriðja daginn sýnandi.

Hins vegar dugir ekki að standa þannig að málum, ef ætlunin er að tala niðurstöður sýningarinnar upp í WorldFeng. Þar sem Norðurlönd eru orðnir aðilar að þeim gagnabanka, má gera ráð fyrir, að ekki verði staðið þar óvandað að málum.

Í Þýzkalandi verða hins vegar áfram einhverjar kynbótasýningar utan ramma WorldFengs. Þróunin er hins vegar í þá átt að menn vilja vera innan rammans og taka þá á sig strangari siðareglur.

Tillagan um harðari dómgæzlu náði meðal annars ekki fram að ganga, að því var haldið fram, að ekki mætti stéttskipta hópi dómara, sem allir hafa sömu réttindi.

Frjáls mél og skeifur 23 mm

Í sportnefnd FEIF voru nokkrar breytingar samþykktar á keppnisreglum. Þær verða teknar upp á Íslandi, þar sem Landsþing hestamannafélaga ákvað í haust að taka upp alþjóðlegu reglurnar.

Ákveðið var að fella niður skrá yfir leyfð mél í keppni. Í stað þess verður val méla gefið frjálst, en gefinn út sérstakur listi yfir bönnuð mél.
Ákveðið var að samræma skeifuþykkt á alþjóðavísu í 23 mm þykkt. Verður hér eftir hægt að fara milli landa í keppni án þess að breyta um skeifur. Fleygar undir skeifum verða leyfðir í keppni.

Samþykkt var að fækka dómurum í minni háttar skeiðkeppni. Í stað níu löglegra dómara verði leyft að hafa þrjá dómara og sex skeiðeftirlitsmenn, sem meðal annars eiga að hafa gætur á, að reiðmennska á skeiði fari ekki úr böndum.
Einnig var samþykkt að taka íslenzku reglurnar um gæðingadóma, sem verið er að þýða á ensku, upp í öllum löndum íslenzka hestsins. Námskeið fyrir útlendinga verður haldið á Íslandi í sumar.

Áhugi hefur vaknað á gæðingadómum í ýmsum löndum, þar sem þeir voru ekki til áður. Meðal annars er rætt um að setja upp Euromót, sem verði hliðstætt íslenzku Landsmóti.

Í nokkrum atriðum, svo sem um stærð auglýsinga á búningum og um bólusetningar, verður farið eftir Alþjóðasambandi hestaíþrótta.

Reiðkennaranám

Menntanefndin samþykkti rammaáætlun eða beinagrind um áfangaskipt nám fyrir reiðkennara, að nokkru leyti í svipuðum farvegi og námsferill reiðkennara á Íslandi, en nógu opið til þess að flest menntakerfi í Íslandshestamennskunni geti fundið sér stað innan þess. Þetta auðveldar samvinnu í menntamálum milli landa.

Fulltrúi frá Alaska í Bandaríkjunum kvartaði við blaðamanna Eiðfaxa um, að reglur um knapamerkjakerfið væru ekki aðgengilegar á ensku. Honum hafi verið sagt, að fjármagn skorti til þýðingar og að enn væri það ekki fullbúið. Hann hafði því væntingar til rammaáætlunar kennslunefndar FEIF, sem er upprunnið í Hollandi.

Formaður menntanefndarinnar taldi, að Ísland og önnur lönd ættu ef til vill ekki samleið að öllu leyti, af því að á Íslandi væri námið í hinu almenna skólakerfi og lyti þeim reglum, sem þar gilda. Svipaðar aðstæður eru raunar að skapast á Norðurlöndum. Benti hann á, að reiðkennsla væri komin á háskólastig á Íslandi. Löndin í þessu kennslukerfi munu sennilega gefa út einn passa, sem gildir fyrir reiðkennara milli landa.

Í pallborðsumræðu um reiðkennslu kom svo ítrekað fram það sjónarmið, að varhugaverð gæti verið sú kennsla, sem felst í helgarnámskeiðum farandkennara, sem víða eru eftirsóttir. Í því sjónarmiði virðist felast ákveðin spenna heimakennara gagnvart farandkennurum, sem margir hverjir koma einmitt frá Íslandi.

Euromót eins og Landsmót

Tone Kolnæs, formaður FEIF, lýsti í lokaræðu ráðstefnunnar nokkrum atriðum, sem voru til umræðu á formannafundum landsamtakanna og verða til umræðu í stjórninni á næstunni.

Rætt verður um að setja upp Euromót í Evrópu að hætti hins íslenzka Landsmóts, fyrir gæðinga og kynbótahross. Ennfremur samstarf landssamtaka um sýningar söluhrossa.

Rætt verður um að gera ráðstefnuna árlega, svo að fulltrúar hinna ýmsu sviða hestamennskunnar geti hitzt og haft samráð sín í milli til undirbúnings mála fyrir fulltrúaþing.

Karlakór og Guðni ráðherra

Málþing um íslenzka hestinn var haldið á Norðurhafsbryggju, því miður á sama tíma og ráðstefnan, svo að ekki gátu menn sótt það, en komust hins vegar á reiðsýningu, sem haldin var í kjölfar málþingsins.

Sýningin leið fyrir snjókomu og vind, en Karlakórinn Fóstbræður vakti lukku. Þá töluðu Danir um, að Guðni Ágústsson ráðherra hefði farið á kostum í ræðu sinni og sögðu fréttamanni, að Íslendingar ættu gott að eiga einn skemmtilegan ráðherra.

Enn er til losarabragur

Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur:

Mikil samstaða var um spattið og þá leið, sem Íslendingar völdu í haust. Við munum koma á fót námskeiði í réttri röntgenmyndatöku, fjórum myndum af hverjum hækli. Allar myndir verða metnar á einum stað.

Okkur tókst ekki að ná fram þeirri kröfu, að aðaldómari hverrar kynbótasýningar komi af lista yfir reynslumestu dómarana. Við sáum í fyrra í Þýzkalandi sýningar, þar sem hjón dæmdu og sýndu á víxl og þar sem sýningarstjórar, dómarar og sýnendur skiptu um hlutverk. Vilji menn hafa losarabrag áfram, komast slíkar sýningar ekki í WorldFeng. Menn verða því fyrr eða síðar að fallast á strangari siðareglur í dómum, þótt það hafi ekki tekizt núna.

Árangursríkur fundur

Sigurður Sæmundsson, í sportnefnd FEIF:

Þetta var mjög árangursríkur fundur. Gerð var sátt um millileið í skeifuþykkt, 23 millimetrum. Með beizlisreglum fara allar mælingar út og öll mél verða frjáls, nema þau séu sett á bannlista. Reglur um skeiðdóma á minni háttar sýningum voru einfaldaðar niður í þrjá dómara og sex skeiðeftirlitsmenn. Gæðingakeppnin íslenzka verður tekin upp í öðrum löndum og íslenzku reglurnar einfaldlega þýddar.

Eini gallinn við ráðstefnuna er, að fulltrúafundur FEIF þyrfti að koma strax á eftir, en ekki um haustið, því að það tefur núna framvinduna um heilt sýningarár.

Útbreiðir hestinn okkar

Jón Albert Sigurbjörnsson, formaður LH:

Þetta var rosalega afdrifaríkur fundur, sem eykur mikilvægi alþjóðasamtakanna fyrir íslenzka hestinn. Slíkar ráðstefnur, þar sem fjöldi manns mæta og taka þátt í umræðum í nefndum og á fundum, verður til að efla stöðu FEIF sem mikilvægasta aflsins við útbreiðslu íslenzka hestsins. Við erum að vísu fámennir Íslendingar í nefndunum, en á móti kemur, að okkar fólk hefur unnið heimavinnuna sína vel og tekur afgerandi þátt í umræðunni. Sem dæmi um það má nefna Sigurð Sæmundsson, sem hefur mikla yfirsýn, nýtur mikils árlits í sportnefndinni og hefur lag á að leiða góð mál til lykta.

Eiðfaxi 2.tbl. 2005