Í Tevtóborgarskógi

Greinar

Uppgjöf Vesturlanda fyrir barbörum Milosevics markar tímamót í vestrænni sögu, sem minnir á ósigur Rómverjans Varusar í Tevtóborgarskógi. Á hátindi velgengninnar kemur í ljós, að værukær Vesturlönd hafa hvorki siðferði né kjark til að verja hinn vestræna frið.

Uppgjöfin varð formleg á varnarmálaráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles í fyrradag. Þar kom í ljós, að Vesturlönd hyggjast fallast í raun á landvinninga Serba í Bosníu og framlengja marklausar hótanir sínar um aðgerðir gegn auknum landvinningum þeirra.

Vesturlönd bera ábyrgð á blóðbaðinu í Bosníu á þrennan hátt. Þau voru með hótanir, sem slunginn leiðtogi barbaranna vissi, að ekki yrði staðið við. Þau settu vopnasölubann á Bosníumenn, svo að þeir gátu ekki varið sig fyrir illþýði Serba, sem var grátt fyrir járnum.

Í þriðja lagi stóðu Vesturlönd fyrir langdregnum vopnahlés- og friðarviðræðum, er gáfu nauðgarasveitum Serba svigrúm og tíma til þjóðahreinsunar á svæðum, sem þeir unnu af Bosníumönnum. Sáttasemjarar Vesturlanda sýndu ótrúlegan barnaskap á þessu ömurlega ferli.

Allt þetta var fyrirsjáanlegt fyrir hálfu öðru ári, þegar illþýði Serba hóf skipulegar árásir á sjálfa menningarsöguna í Dubrovnik. Þá var strax spáð nokkrum sinnum í leiðurum þessa blaðs, hvernig fara mundi, ef Vesturlönd áttuðu sig ekki á eðli barbarismans hjá Milosevic.

Eftir uppgjöf Atlantshafsbandalagsins getum við slegið föstu, að því hefur ekki tekizt að finna sér nýtt hlutverk eftir andlát Sovétríkjanna og mun ekki takast það. Þess vegna er einsýnt að leggja bandalagið niður og spara Vesturlöndum kostnaðinn af atvinnuleysingjanum.

Eftir uppgjöfina getum við slegið föstu, að hernaðarlegu forustuhlutverki Bandaríkjanna meðal Vesturlanda er lokið. Eftir óvænta uppgjöf Bandaríkjahers í Persaflóastríðinu var spáð í leiðurum þessa blaðs, að Bandaríkin mundu ekki framar heyja stríð að eigin frumkvæði.

Í staðinn koma samráð Norður-Ameríku og Vestur- Evrópu, sem engan veginn vill taka við hlutverki Bandaríkjanna. Úr þessu verður patt, sem hefur haft hörmulegar afleiðingar í Bosníu, næst í Kosovo, síðar í Kákasus, unz eldar brenna á öllum mærum hins vestræna friðar.

Eftir uppgjöfina getum við slegið föstu, að tími leiðtoga er liðinn á Vesturlöndum. Í stað frú Thatcher eru komnir lagnir og liprir undirmálsmenn á borð við Clinton og Mayor, Kohl og Mitterrand. Þeir eru skammtímamenn í hugsun og vilja lengst hugsa til næstu kosninga.

Það er misskilningur, að slíkir menn séu farsælli en raunverulegir leiðtogar, sem hneigist til að rasa um ráð fram. Það eru Chamberlainar nútímans sem soga til Vesturlanda vandamál á borð við Serbíu, alveg eins og gamli Chamberlain magnaði Hitler með undanlátssemi.

Heimurinn er ekki þannig, að vestræn sjónarmið hafi endanlega sigrað og þjóðir Vesturlanda geti búið sælar að sínu. Þvert á móti er ástandið að verða eins og þegar heimsveldi Rómar stóð sem hæst. Þá byrjaði strax það ferli, sem leiddi til hruns hins rómverska friðar.

Vesturlandabúar þurfa að fara að átta sig á, að stjórnmálamenn á borð við Clinton og Mayor, Kohl og Mitterrand og samningamenn á borð við Vance og Owen eru ónytjungar. Við þurfum líka að átta okkur á, að stofnanir á borð við Atlantshafsbandalagið eru sjálfdauðar.

Vestræn menning stenzt ekki, nema haldið sé fast við langtímasjónarmið hennar og barbarisma sé haldið í skefjum í Tevtóborgarskógum hins vestræna friðar.

Jónas Kristjánsson

DV