Iðnó

Veitingar

Iðnó er notalegast í björtu sumarveðri, þegar stórir og þétt settir bogagluggar veita útsýni yfir Tjörnina, en einnig þægilegt við kertaljós að kvöldi. Salurinn er smekklega gamaldags án þess að höfða til fortíðarþrár, gulbrúnn að lit, skreyttur panil neðan og veggsúlum á eina langhlið.

Lítið er um aðskiljanlegt dót, nema fuglastyttur í gluggum. Fyrst og fremst er allt vandað og stílhreint, borð og stólar, ísaumaðir dúkar undir glerplötum, tauþurrkur í hádegi sem að kvöldi og íhaldssamt borðstell. Að hætti evrópskra millistríðshótela eru pálmaplöntur á miðju gólfi.

Þessu fylgir traust og góð þjónusta og matreiðsla, sem stundum fer sínar eigin slóðir, en nær sjaldan hæstu hæðum. Enginn réttur var að neinu leyti misheppnaður, en fáir minnisstæðir. Með klofningi Tjarnarinnar í tvo veitingastaði hafa báðir erfingjarnir lækkað flugið í átt til meðalmennskunnar.

Frá systurstaðnum er ættuð kryddnotkunin, sem er helzti styrkleiki eldhússins, í mildri sesam- og balsamsósu með léttreyktri villigæsabringu, í saffran- og engiferblandaðri tómatsósu með hörpuskelfiski, í möndlublandaðri portvínssósu með silungi, og í hvítlauks- og fáfnisgrasasósu með lambarifjasteik.

Þetta kemur líka fram í súpunum, magnaðri tómatsúpu dagsins með steinselju og tómatbitum, og hvítvínslagaðri tómatsúpu með kræklingum í skelinni. Ljúflega eldaður hörpuskelfiskur var nærri eins góður og skemmtilega kryddaður humar að hætti hússins, borinn fram með rauðlauk og steiktum kartöfluræmum.

Sízti aðalrétturinn var ofeldaður silungur, skemmtilega húðaður smásöxuðum möndlum. Betri var olíusteiktur saltfiskur með hvítlauk og basilikum, undir hatti af kartöflustöppu og með rauðlauk til hliðar.

Kanínukjöt er á boðstólum, mitt á milli kjúklinga og grísakjöts og heldur betra, með blóðbergi og rauðvínssósu. Góð var hæfilega fituskorin og nákvæmlega elduð lambarifjasteik, fallega upp sett með kryddlegnum gulrótum. Bezti aðalrétturinn var eggjaspínatbaka fyrir grænmetisætur.

Svokölluð eplakaka var sívalt frauð án eplabragðs á litlum brauðbotni, með þeyttum rjóma, gulri kanilsósu og rauðri berjasósu. Hefðbundin var súkkulaðiterta með koníakssósu, tvenns konar berjum og þeyttum rjóma. Kaffi var gott.

Iðnó er heldur dýrara en systurhúsið, 4.100 krónur á mann fyrir þríréttað með kaffi og 1.600 krónur fyrir súpu og aðalrétt í hádeginu. Verðlagið vekur spurninguna, hvort ekki sé komið nóg af dýrum sæmdarstöðum, sem líkjast hver öðrum.

Jónas Kristjánsson

DV