Kryddfrelsi í Iðnó
Matreiðsla, þjónusta og aðbúnaður hafa batnað í Iðnó, matsalnum á annarri hæð leikhússins við Tjörnina. Salurinn er núna skreyttur málverkum og risaglervösum. Þjónustan er fagleg og dúkar og þurrkur eru úr drifhvítu líni. Matreiðslan er spennandi á köflum, einkum vegna frjálslegrar kryddnotkunar.
Ekki er ég að segja, að hamagangur með kryddstauka gangi alltaf upp, en skemmtileg tilbreytni var í steinselju- og hvítlaukshúðuðum laxi. Enn betur gekk dæmið upp í glóðaðri smálúðu með skemmtilega ögrandi appelsínusósu. Hins vegar var fiskurinn í báðum tilvikum lítillega of lengi eldaður.
Frísklegt og litskrúðugt salat var einn forrétta forrétt og fínlegur og góður hrísgrjónagrautur risotto kom með laxinum. Iðnó er greinilega komið á kortið sem einn alvörustaðanna í matargerðarlist. Verðið á þríréttuðu með kaffi er þægilegt miðað við gæði, að meðaltali 3.700 krónur. Aðsókn mætti vera meiri.
Heitir og er Út í bláinn
Út í bláinn heitir og er nýr tapas-bar, spánskur smáréttabar í fremur skuggalegum og grófum, en hreinlegum og ótrúlega víðum kjallara Hlaðvarpans með berum burðarvirkjum. Þar sitja gestir í hóflegum þægindum í básum við tréborð með pappírsþurrkum, njóta hóflegar fagmennsku í þjónustu og punga út 4.300 krónum fyrir frjálst val tveggja tapas í forrétt, aðalréttar og eftirréttar af seðli og kaffis. Einnig er hægt að velja milli sex fastra tapas-blandna á 1.900 krónur. Stakir kosta smáréttirnir um 400 krónur hver og í hádeginu er boðin súpa dagsins og þrír smáréttir á hóflegar 890 krónur.
Saltfiskbollurnar í kryddaðri tómatsósu voru ekki úr nógu góðum ssaltfiski, krabbasalatið var fáfengilegt og beikonvafða hörpuskelin bauð aðeins beikonbragð. Hvítlauksbakaðir humarhalar voru of lítið skornir, svo að erfitt var að ná fiskinum út, en hann var meyr og bragðgóður, rétt eins og heili smokkfiskurinn, sem borinn var fram með sterkri paprikusósu og bjargaði heiðri staðarins. Ágæt voru koníakslegin jarðarber með þeyttum rjóma og espresso-kaffið var ekta.
Þemu leysa gæði af hólmi
Í kjölfar aukinnar sýndarmennsku í þjóðfélaginu hafa risið víða um bæ þemahús veitinga, þar sem reynt er að höfða til markhópa, einkum meðal ungs fólks, með leiktjöldum eða öðrum stælum. Gestir greiða alvöruverð, en samt er sparað flest það, sem kostar peninga og áður var talið til aðalsmerkja veitingahúsa, svo sem fagleg þjónusta, dúkuð borð og vönduð matreiðsla. Matreiðslan er oft sæmileg og getur verið góð á köflum, en er yfirleitt einföld og oftast lítt minnisstæð. Vinsældir margra þessara staða benda til, að bætt hafi verið úr brýnum skorti gervimennsku í veitingabransanum
Jónas Kristjánsson
DV