Illa rekið ráðuneyti

Greinar

Svo mikið fé fer til heilbrigðismála hér á landi, að unnt á að vera að reka heilbrigðiskerfið á sómasamlegan hátt, þannig að biðlistar sjúkrahúsa styttist frekar en lengist, fátækt fólk treystist til að nota þjónustuna og árleg tölfræði sýni batnandi heilsu þjóðarinnar.

Innbyggð verðbólga í kerfinu veldur því hins vegar, að óbreytt magn þjónustu hækkar í kostnaði milli ára. Þannig stækkaði sneið heilbrigðismálanna af landsframleiðslunni frá ári til árs, unz náð var svo stórri sneið, að þjóðfélagið hefur ekki treyst sér til að gera betur.

Síðan hefur flest verið á hverfanda hveli í heilbrigðisgeiranum. Ríkinu hefur ekki tekizt að halda uppi óbreyttri þjónustu á óbreyttu verði. Fjárveitingar til sjúkrastofnana hafa verið skornar niður, deildum lokað, og tekin upp þátttaka sjúklinga í ýmsum kostnaði.

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki reynzt vandanum vaxið. Því hefur til dæmis ekki tekizt að skilgreina, hvers vegna hér eru sífelldar kjaradeildur í heilbrigðisgeiranum, þótt kostnaður hans og hlutdeild launa í kostnaðinum sé hinn sami og á Norðurlöndum.

Heilbrigðisráðuneytinu hefur ekki heldur tekizt að forgangsraða verkefnum í geiranum á þann hátt, að sómasamlega sé staðið að þeim verkefnum, sem hann á annað borð tekur að sér. Í staðinn hefur komið flatur niðurskurður, sem sýnir uppgjöf ráðuneytisins.

Víða úti á landi eru elliheimili rekin undir yfirskini sjúkrastofnana og á kostnað heilbrigðisgeirans, þótt slík starfsemi eigi heima annars staðar. Þetta er gert að undirlagi óprúttinna pólitíkusa, sem eru að reyna að hlaða framkvæmdum og rekstri í kjördæmi sín.

Af því að heilbrigðisráðuneytið er veikt ráðuneyti, hefur það ekki hamlað gegn slíkri misnotkun á peningum til heilbrigðismála. Raunar hefur ekkert komið í ljós, sem bendir til, að ráðuneytið hafi reynt að marki að verjast þessu, enda er það meira eða minna meðsekt.

Mikilvægast er, að ráðuneytið geti tekið frumkvæði í málum og sé ekki sífellt að berjast við afleiðingar fyrri ákvarðana. Varnarstríð í tímahraki leiðir til, að það neitar að horfast í augu við staðreyndir og heimtar bara flatan niðurskurð á síðustu mánuðum ársins.

Úr því að hæfileikar til skipulags og rekstrar eru ekki á lausu í ráðuneytinu, þarf að kaupa til sérfræðiþjónustu, svo sem víða er gert. Skilgreina þarf, hvaða þjónustu ríkið vill veita í heilbrigðismálum og hvaða verð það er að borga fyrir ýmiss konar þjónustu.

Ef sambærileg þjónusta er dýrari á einum stað en öðrum, er eðlilegt, að þar séu seglin dregin saman, en fremur aukin starfsemin á hinum stöðunum, þar sem tekst að framkvæma sömu þjónustu með minni tilkostnaði. Þannig má beita markaðslögmálum af skynsemi.

Ráðuneytið hefur hins vegar ekki hugmynd um, hvað markaðslögmál eru. Það hefur ekki tök á neinum þeim vopnum, sem einkareksturinn hefur til að minnka kostnað og auka hagnað. Það er varnarlaust fórnardýr reglunnar um innbyggða verðbólgu kerfisins.

Þetta leiðir til gerræðislegra neyðarráðstafana, sem væru óþarfar, ef heilbrigðisráðuneytið hefði skilgreind og framkvæmanleg markmið, vissi um misjafnan kostnað við sömu þjónustu og beitti allri þessari þekkingu og tækni til að ná tökum á sökkvandi skipi sínu.

Dæmigert er svo, að þetta lélega ráðuneyti skuli ekki geta undirbúið ráðherra sinn til að koma sómasamlega fram fyrir hönd þess, þegar mikið liggur við.

Jónas Kristjánsson

DV