Mikil vaxtahækkun bankanna er hvorki í samræmi við mat óháðra manna úti í bæ á verðlagsþróun í landinu né í samræmi við vaxtastigið í nágrannalöndunum. Þess vegna er brýnt, að bankarnir láti frá sér fara rækilegan rökstuðning fyrir hinni óvæntu hækkun.
Bankarnir kunna að hafa rétt fyrir sér. En þeir eru líka grunaðir um græzku. Þeir starfa á tiltölulega lokuðum markaði, þar sem afar fáir aðilar standa öðrum megin við borðið og ákveða vextina. Það eru stóru bankarnir og samtök lífeyrissjóðanna, sem stunda fáokun.
Það dugir ekki, að bankastjórar fullyrði, að vaxtastigið sé inn og út í bönkunum, hafi ekki áhrif á afkomu þeirra og því séu engin slík undirmál að baki vaxtahækkuninni. Við treystum ekki fullyrðingum bankanna og viljum heldur sjá röksemdir þeirra fyrir hækkuninni.
Ef sparifjármyndun fer minnkandi um þessar mundir, þannig að hættulegt megi teljast, eiga bankarnir að segja frá því, þannig að eftir verði tekið. Sama er að segja um aðrar röksemdir, sem bankarnir kunna að hafa fyrir því að hækka vexti, þegar verðbólga er nánast engin.
Raunvextir í landinu eru komnir í og yfir 10%, sem hlýtur að teljast svo óvenjulegt, að það þarfnist nánari útskýringa af hálfu fáokunarinnar. Erfitt er að sjá fyrir sér, að atvinnuvegirnir í landinu búi yfir framleiðni, sem standi undir svona hrikalega háum raunvöxtum.
Hitt er svo líka rétt, að þessir háu vextir hljóta að kalla á, að þeir spari meira, sem það geta, til þess að njóta hagnaðarins af hækkun vaxta. Þar með ætti meira fé að sogast um banka- og sjóðakerfið til afnota í atvinnulífinu, ef þar ríkir mikil þensla og fjárþörf.
Ekki sjá allir þensluna og verðbólguhvatana, sem bankarnir virðast þykjast sjá. Við erum enn í lægðinni, sem hefur einkennt þjóðarbúskapinn í um það bil tvö ár. Tölur um atvinnuleysi í Reykjavík eru hærri í byrjun þessa árs en þær voru í byrjun síðasta árs.
Bætt afkoma margra stórfyrirtækja stafar ekki af auknum umsvifum þeirra, heldur af útgjaldasamdrætti, sem leiðir af sparnaði í rekstri og fækkun starfsfólks. Þessi bætta afkoma tengist hvergi þenslu, heldur er hún bein afleiðing varnaraðgerða á samdráttartíma.
Nú kann svo að vera, að bankastjórar verði á biðstofum sínum varir við holskeflur bjartsýnna athafnamanna, sem þurfi lánsfé til að fjármagna athafnir, er standa undir 10% raunvöxtum. En þá eiga talsmenn bankanna að segja okkur frá þeim merku tíðindum.
Við vantreystum bæði heilindum og dómgreind ráðamanna bankanna. Við vitum af háum afskriftum bankanna, að þeir kunna að minnsta kosti ekki að lána peninga, svo vel fari. Við vitum af mikilli eyðslusemi þeirra, að þeir kunna að minnsta kosti ekki með fé að fara.
Helzt vildum við, að einhverjir aðrir en fáokunarmenn bankanna segðu okkur, hvert sé verðbólgustigið og hverjir séu eðlilegir vextir um þessar mundir. Við teljum, að fáokun bankanna sé slík, að markaðslögmálin stjórni þessu ekki, heldur sé eins konar handafl á ferðinni.
Við komum enn og aftur að þeirri staðreynd, að óþægilegt er að vera háð svona fáum bönkum og hafa ekki greiðan aðgang að alþjóðlegum lánamarkaði. Ef við værum betur tengd umheiminum, mundum við fremur treysta því, að vextir fylgdu markaðslögmálum.
Meðan svo er ekki, viljum við að minnsta kosti sjá, hvort bankarnir geta rökstutt mikla og óvænta hækkun vaxta. Við bíðum enn eftir þeirri röksemdafærslu.
Jónas Kristjánsson
DV