Illa undirbúnar hvalveiðar

Greinar

Á tíðum ferðum um heiminn hafa íslenzkir ráðherrar víða þreifað á viðbrögðum við endurnýjun íslenzkra hvalveiða og hvarvetna fengið fálegar viðtökur. Þennan kalda veruleika hafa forsætis- og utanríkisráðherra verið að reyna að segja sjávarútvegsnefnd Alþingis.

Það er ekki nægur undirbúningur hvalveiða, að ráðherrar boði fagnaðarerindið í Mexíkó og Malasíu, Mósambík og Malaví. Það er heldur ekki nóg að efna til enn einnar skoðanakönnunarinnar og leita að þessu sinni álits helztu viðskiptamanna okkar erlendis.

Í skoðanakönnunum erlendis hefur komið í ljós munur á viðbrögðum eftir orðalagi spurninganna. Óundirbúnir eru flestir Vesturlandabúar andvígir hvalveiðum, en geta með ákveðnum skilyrðum, sem tilgreind eru í spurningunni, fallizt á takmarkaðar hrefnuveiðar.

Ef menn heyra þær röksemdir, að hrefnustofninn sé ekki í hættu, heldur telji eina milljón dýra, að kjötið fari til manneldis, að veiðarnar séu hluti þjóðmenningar, að Alþjóða hvalveiðiráðið ákveði aflakvóta og tryggi stærð stofnsins, fara hinir spurðu að verða jákvæðari.

Yfirveguð viðhorf af slíku tagi ráða hins vegar ekki ferðinni. Ef við hefjum hvalveiðar að nýju án þess að hafa breytt viðhorfum fólks í viðskiptalöndum okkar, munum við verða fyrir dýrkeyptum hliðarverkunum, sem hvalveiðitekjur munu ekki standa undir.

Ef það er í alvöru ásetningur þings og þjóðar að hefja hvalveiðar að nýju, er nauðsynlegt að efna til stórfelldrar herferðar í viðskiptalöndum okkar, þar sem reynt verði að sýna fram á, að röksemdir okkar í málinu eigi að vega þyngra á metunum en tilfinningasemin.

Til sparnaðar er brýnt að hafa um þetta samráð við aðra aðila, sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta, til dæmis í Noregi. Eðlilegt er, að hugsjónaöfl hvalveiða, með meirihluta þjóðanna að baki, efni til fjársöfnunar til að standa undir slíkri herferð á Vesturlöndum.

Eðlilegt er, að ríkin taki einhvern þátt í þessum kostnaði, sem fyrst og fremst ætti þó að hvíla á herðum hugsjónaafla hvalveiðanna. Fyrsta skynsamlega skrefið í átt til hvalveiða felst í að tryggja fjármögnun slíkrar herferðar á hendur almenningálitinu á Vesturlöndum.

Þegar skoðanakannanir hafa leitt í ljós, að tekizt hafi að milda þetta álit nægilega, er hægt að fara að stíga næstu skref, en fyrr ekki. Það er til dæmis óráðlegt að vera með miklar yfirlýsingar um hvalveiðar, meðan viðhorfin eru eins neikvæð og raun ber vitni.

Einnig ber hinum hyggnari í röðum hvalveiðisinna að láta minna bera á fyndnum kenningum róttæklinga um, að veiðar á 250 hrefnum úr 1.000.000 dýra stofni muni létta veiðimönnum samkeppnina við hvalinn og auka aflaverðmæti okkar um milljarða króna á ári.

Þegar reynt verður að hafa vit fyrir útlendingum með upplýsingum og áróðri, er mikilvægt að velja sér vopn rökhyggju og raunhyggju, en skilja fyndnustu fullyrðingarnar eftir heima, því að dreifing þeirra á alþjóðamarkaði mun ekki flýta fyrir hvalveiðum.

Það sýnir innihaldsleysi hinnar árvissu æfinga alþingismanna á sviði þingsályktana um hvalveiðar, að málið skuli ekki vera lagt fyrir eins og hér hefur verið lýst. Það sýnir, að billegir þingmenn eru að gæla við fávísa kjósendur sína, án þess að meina neitt með því.

Við höfum áður lent í að fórna hagsmunum hvalveiða fyrir meiri hagsmuni og munum áreiðanlega lenda í því aftur, ef jarðvegurinn hefur ekki verið undirbúinn.

Jónas Kristjánsson

DV