Illindi leysa sættir af hólmi

Greinar

Síðustu ár tuttugustu aldar hefðu átt að geta verið pólitískt friðsæl hér á landi. Fennt hafði yfir ýmsan ágreining, sem varð tilefni núverandi flokkaskipunar í stjórnmálum. Hugtök á borð við hægri og vinstri höfðu dofnað og eru núna varla nema svipur hjá fyrri sjón.

Fjórflokkurinn varð til fyrir mörgum áratugum og er við beztu heilsu undir lok aldarinnar. Samt eru grundvallaratriði skipulagsins meira eða minna grafin í gleymsku. Þótt flokkarnir hafa misjafna afstöðu í sumum málum, eru það ekki hefðbundnu ágreiningsefnin.

Að baki eru ýmsar deilur, sem áður klufu þjóðina. Kalda stríðinu er lokið. Afstaðan til Atlantshafsbandalagsins skiptir fólki ekki lengur í fylkingar. Deilur um utanríkismál eru sáralitlar aðrar en um viðhorfið til Evrópusambandsins, sem er nýlegt fyrirbæri.

Lokið er þorskastríðum og lagðar af landhelgisdeilur við Breta og Norðmenn. Samningaferill og tæknilegar útfærslur skiptu þjóðinni stundum í fylkingar fyrr á árum og áratugum. En þjóðin lifir núna í sátt við niðurstöður þessara mála og hyggst gera það áfram.

Almenni vinnumarkaðurinn er hættur að vera verksvið átaka. Forustumenn stéttarfélaga hafa tekið trú á stöðugleikann sem hornstein lífskjara félagsmanna sinna og vilja sízt af öllu rugga bátnum. Þeir kvarta um tillitsleysi stjórnvalda, en gera ekkert í málunum.

Almennt má segja um hvort tveggja, grundvallaratriði flokkaskipulagsins og síðari tíma sérmál, að sátt hefur náðst í þjóðfélaginu og tekið broddinn úr deilunum. Menn hafa þjarkað fram og aftur og fundið millileiðir, sem eru eitt helzta einkenni lýðræðisríkja nútímans.

Samt logar allt í illdeilum í þjóðfélaginu undir lok aldarinnar. Ný mál hafa komið til sögunnar og klofið þjóðina í fylkingar. Meðal þeirra eru gjafakvóti, Kárabanki og Eyjabakkar, allt saman dæmigerð sérmál, sem áður kölluðu á pólitíska lagni við lausn deilna.

Meirihluti þjóðarinnar hefur verið andvígur gjafakvóta í fiskveiðum og eyðingu Eyjabakka og mjög stór og rökfastur minnihluti hefur verið andvígur því, að sjúkraskrár þjóðarinnar væru gefnar. Áður fyrr hefðu svona fjölmenn og öflug sjónarmið leitt til millileiða.

Með auknum aflaheimildum hefði verið hægt að úthluta viðbótinni í samræmi við gagnrýni á gjafakvótann, bjóða hana upp eða afhenda sjávarplássum. Verðleggja hefði mátt sjúkraskrár, svo að þjóðfélagið fengi beinan hagnað af því að afhenda verðmæti til afnota.

Bent hefur verið á ýmsar millileiðir í málum Eyjabakka, allt frá virkjun jarðhita yfir í verðlagningu umhverfisþátta. Ekki hefur verið stiginn millimetri til móts við slíkar hugmyndir, ekki einu sinni fallizt á, að Norsk Hydro væri gefið færi á að skýra tvísagnir.

Sá er nefnilega munur núverandi ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og allra annarra ríkisstjórna í manna minnum, að þær fyrri voru hallar undir málamiðlanir og sættir í ágreiningsefnum, en þessi ríkisstjórn nærist og dafnar beinlínis af spennu og illindum í þjóðfélaginu.

Sumpart stafar þetta af, að stjórnmálamenn hafa áttað sig á, að menn taka sem kjósendur ekkert mark á eigin skoðunum sem borgarar. Flokksmenn halda áfram að kjósa foringja sína, þótt þeir taki ekkert tillit til skoðana þessara flokksmanna. Málefni kljúfa ekki flokka.

Þar sem nógu margir Íslendingar hafa þörf fyrir að láta kúga sig, fá þeir leiðtoga, sem uppfylla þessa þörf. Þess vegna ríkja illindi í þjóðfélaginu, en ekki friður.

Jónas Kristjánsson

DV