Ímynduð stundargrið

Greinar

Önnur af tveimur sennilegum skýringum á nýju lánskjaravísitölunni er, að ríkisstjórnin sé með allra skemmstu skammtímaþarfir sínar í huga. Hún nær næstu hækkun lánskjaravísitölunnar úr 2,23% niður í 1,67%, sem hjálpar örlítið upp á sakirnar í bili.

Ríkisstjórnin er með þessari sjónhverfingu að breyta merkingum á hitamæli verðbólgunnar, þannig að hann sýnir 22% ársverðbólgu núna í janúar í stað 30%, sem hefði verið með gömlu mælingunni. Hitinn minnkar ekki við þetta, heldur er verðbólgan hin sama.

Hin skýringin er, að sumir þeir ráðherrar, sem sjá aðeins lengra en til næstu mánaðamóta, geri ráð fyrir, að hlutur launa í þjóðartekjum sé í hámarki um þessar mundir og hljóti óhjákvæmilega að lækka á allra næstu misserum. Því sé breytingin rétt tímasett.

Frá þessum sjónarhóli má reikna með, að hin nýja vísitala mæli verðbólguhitann lægri en ella væri á öllu því tímabili, er hlutdeild launa í þjóðartekjum lækkar. Það gæti hjálpað ríkisstjórninni í sjónhverfingum verðbólgumælinga um nokkurt skeið eða út kjörtímabilið.

Flestir eru sammála um, að á löngum tíma mæli nýja vísitalan sama verðbólguhita og hin gamla. Hins vegar getur munurinn verið mjög mikill á sveiflutímum, þegar hlutdeild launa í þjóðarbúskapnum er annað hvort á upp- eða niðurleið, svo sem mörg dæmi eru um.

Ef þessi ríkisstjórn eða þær, sem á eftir henni koma, gæta þess að krukka kerfisbundið í vísitöluna á réttum tímum í þessum sveiflum, má ná fram varanlegri fölsun á mælingu vísitöluhitans. Slík sjónhverfing er að sjálfsögðu ein æðsta hugsjón sérhverrar ríkisstjórnar.

Þannig má auka vægi launa í vísitölu, er búast má við minnkandi hlut launa í þjóðarbúskapnum, en minnka vægið eða taka launin jafnvel aftur úr vísitölunni, þegar reiknað er með auknum hlut launa. Þetta verður áhugamál stjórnmálamanna á næstu árum.

Ekki er einhlítt, að ríkisstjórnin geti glaðzt yfir að hafa bundið hendur samtaka launafólks. Að vísu kann breytingin að draga úr kaupkröfum, af því að fólk sér, að hækkanir muni skrúfa upp lánskjaravísitölu. En þá fara samtökin bara að verzla með málið í staðinn.

Gallinn við bragðvísina er, að samtök þeirra, sem málið varðar, munu taka tillit til hennar í gerðum sínum. Þannig munu félög launafólks hér eftir heimta, að ríkisstjórnir greiði fyrir samningum með annars konar svindli með vísitölur en ríkisstjórnir kjósa sjálfar.

Þannig er hætt við, að ríkisstjórnir fái ekki að vera í friði með hina nýju uppgötvun í tækni vísitölufalsana. Nýja, launatengda vísitalan mun nú kalla á gagnaðgerðir allra þeirra, sem hræddir eru við breytinguna, ýmist vegna eigin hagsmuna eða almannahagsmuna.

Nærri allir eru á móti launatengingu vísitölunnar. Aðilar vinnumarkaðarins eru samstíga í andstöðunni. Samtök lífeyrissjóða og aðrar peningastofnanir eru á móti henni. Meira að segja gengu einstakir ráðherrar í stjórninni með tregðu til vísitölufölsunar Steingríms.

Heildaráhrifin af breytingunni eru skaðleg, því að krukk í vísitölur dregur úr trausti fólks á mælikvarðanum. Gamla lánskjaravísitalan hafði ríkt í áratug og skapað festu. Hún var óvinsæl um tíma, en rétti sig af, þegar sveiflurnar jöfnuðust. Nú er festunni kastað brott.

Með breytingunni hefur stjórnin fórnað þjóðarhagsmunum festunnar fyrir ímynduð stundargrið í baráttu fyrir fölsuðum merkingum á hitamæli verðbólgunnar.

Jónas Kristjánsson

DV