Er bankar framleiða ímyndaða peninga, blandast þeir saman við alvörupeninga. Kúnstin í braskinu er að fá lánaða ímyndaða peninga og breyta þeim í alvöru peninga. Helzt að færa þá yfir í gjaldeyri og fela í Tortólum aflandsfélaga. Þannig var hrunið framleitt. Sumir gerendur þess sitja úti með stórar fúlgur á földum reikningum á aflandseyjum. Aðrir standa eftir slyppir og snauðir. Nú vilja sumir taka nýjan snúning á framleiðslu ímyndaðra peninga. Leysa á þann hátt greiðsluvanda húsnæðisskuldara. Geta samt ekki svarað, hvers vegna ekki sé líka hægt að leysa skuldavanda alls heimsins með ímynduðum peningum.