Indian Mango

Veitingar

Indian Mango

Indian Mango er ofmetið veitingahús við Frakkastíg með fjölþjóðlegri blöndu af vestrænni matreiðslu, portúgalskri og matreiðslu frá borginni Goa á vesturströnd Indlands. Þetta er ekki indverskur staður í hefðbundnum skilningi, býður ekki kryddaða raita jógúrt eða naan brauð og ekki heldur rétt eldað tandoori úr leirofni. Fráleitt er að borða þar tandoori kjúkling, en ágætt að fá sér hæfilega grillaðan svartfugl að ný-íslenzkum hætti. Ekki veit ég, hvers vegna sílikonliðið elskar staðinn, kannski af því að staðurinn er enskumælandi, ekki hægt að panta mat á íslenzku.

Veitingarýni

Indverskur matur er mun betri á Austur-Indíafélaginu á Hverfisgötu, að vísu dýrari. Þar kostar þríréttað 4.800 krónur, en á Indian Mango kostar það 3.300 krónur, svo sem sanngjarnt verð, ef þú heldur ekki, að þú sért að borða upp á indversku. Afgreiðslan er hæg, en þjónustan er brosmild og þægileg, dálítið upphafin á ameríska vísu, en þó ekki ætluð túristum. Staðurinn er í kjallara, tekur um 40 manns í sæti á tveimur gólfum. Húsakynni eru notaleg, svo sem tágastólar, skreytingar ekki of indverskar, íslenzkt málverk er á vegg. Munnþurrkur eru úr þykkum pappír og hnífapör eru sérstæð.

Frumlegt

Áherzla er lögð á frumlega framsetningu rétta eins og í klassískri eldamennsku íslenzkri. Rauðvínsglas var sett á hvolf ofan á kryddlegið hrásalat, uppi á botninum haft chutney sulta og í kring fjórir munnbitar af hveitihúðuðum fiski. Geymslubragð var að rækjum í stökku pappadom brauði, sem fylgir flestum réttum. Djúpsteiking var mikið notuð á sætum kartöflustöngum. Mig langar ekki í neitt af þessu aftur, nema íslenzka svartfuglinn. Indian Mango fær tvær stjörnur.

DV