Indland er bandamaður

Greinar

Ferð Clintons Bandaríkjaforseta til Indlands og Pakistans markar tímamót í alþjóðapólitík. Vandræðaríkinu Pakistan hefur verið skipt út sem bandamanni og það látið víkja fyrir fjölmennasta lýðræðisríki jarðarinnar, Indlandi, sem loksins hlýtur vestrænan sess við hæfi.

Indland er eðlilegur bandamaður Vesturlanda. Það hefur áratugahefð lýðræðislegra stjórnarhátta, þrískiptingar ríkisvaldsins, eðlilegra stjórnarskipta, málfrelsis og mannúðar og hefur á síðustu árum eflt markaðsbúskap í stað ríkisforsjár með góðum árangri.

Indland er síður en svo vandamálalaust ríki, enda er það eiginlega heil heimsálfa með milljarði íbúa, ótal tungumálum og ævafornri stéttaskiptingu. En landið hefur lengi verið klettur í hafi ótryggrar Asíu og mjakast hægt og örugglega götuna fram eftir vegi.

Menningarheimur Indlands er að því leyti líkur menningarheimi Japans og Rússlands og ólíkur menningarheimi Íslams og Kína, að hann fellur að hugmyndafræði vestræns lýðræðis og markaðsbúskapar. Þetta mun skipta máli í átökum menningarheimanna á 21. öld.

Pakistan er hins vegar dæmi um veruleg aðlögunarvandamál margra íslamskra ríkja. Þar skiptast á um völd lýðræðislega kjörnir þjófar og valdaránsmenn hersins, enda er flest á fallanda fæti í landinu, þjóðartekjur fara minnkandi og fjárhagslegt gjaldþrot blasir við.

Nú er við völd valdaránsmaður úr hernum, Pervez Musharraf, sem lengst gekk fram í fyrra við að stofna til vandræða innan landamæra Indlands í Kasmír. Hann ofsækir stjórnarandstæðinga og hefur rekið hæstaréttardómara fyrir að vilja ekki sverja sér trúnaðareiða.

Clinton Bandaríkjaforseti varði fimm dögum í glaumi og gleði í Indlandi og varði síðan dagparti í Pakistan eins og hann væri í óvinaríki, neitaði að láta mynda sig með Musharraf og flutti sjónvarpsávarp um, að stjórn hans yrði að skipta um stefnu eða einangrast ella.

Skyndilega er liðinn sá tími, þegar Pakistan var hálfgert leppríki Bandaríkjanna, teflt fram gegn óformlegu sambandi Indlands og Sovétríkjanna sálugu. Nú er kalda stríðið fyrir löngu að baki og fyrir jafn löngu tímabært að skipta út bandamönnum á þessu svæði.

Um leið sjást þess merki í bandaríska þinginu, að menn eru að átta sig á, að misráðnar hafa verið langvinnar gælur Bandaríkjanna við Kína og að endurskoða þurfi ráðagerðir um aðild alræðisríkisins að alþjóðlegum félagsskap markaðsbúskapar í Heimsviðskiptastofnuninni.

Kína er ekki ríki laga og réttar, heldur geðþótta, þar sem vestrænir fjárfestar hafa glatað og munu áfram glata fé sínu. Kínastjórn er útþenslusinnuð, ofbeldishneigð og siðlaus, hefur í frammi styrjaldarhótanir, sem engum öðrum ríkisstjórnum heimsins mundi detta í hug.

Kínastefna bandarískra stjórnvalda er feilnóta, ættuð frá Nixon og Kissinger, sem þóttust ranglega hafa vit á alþjóðapólitík. Nú er færi á að losna við þessa pólitík, sem skaðar hagsmuni Vesturlanda, og efla í þess stað sambúð við lýðræðisríki markaðsbúskapar í Asíu.

Indland er næstum eins fjölmennt ríki og Kína og verður vænlegri bandamaður í upphafi nýrrar aldar, traustari aðili í fjárhagslegum samskiptum og ólíklegt til að reka rýtinginn í bak Vesturlanda. Þess vegna ber Vesturlöndum að efla Indland til forustu í Asíu.

Það er gömul saga, að pólitískt og fjárhagslega er farsælast að eiga samskipti við þá, sem hugsa svipað og hafa svipaðar leikreglur og maður þekkir sjálfur.

Jónas Kristjánsson

DV