Indverska ævintýrið

Greinar

Þegar Bretar lögðu undir sig þau lönd, sem nú heita Indland, voru þar tugir konungsríkja, tugir tungumála og tugir trúarbragða. Þetta var eiginlega heil heimsálfa, sem síðan öðlaðist sjálfstæði fyrir fimm áratugum. Þá voru ekki margir, sem spáðu vel fyrir Indlandi.

Enn eru tugir tungumála og tugir trúarbragða í Indlandi. Enn er þar hver höndin uppi á móti annarri, svo sem við er að búast í svo sundurleitu ríki. En það er ennþá eitt og heilt ríki eins og við stofnunina. Og það hefur í samfellda fimm áratugi verið lýðræðisríki.

Sjálfstæðissaga Indlands er samfellt ævintýri. Þótt þar búi þjóðir, sem hver skilur ekki tungu annarrar né trúarbrögð annarrar, hefur ríkisheildin haldizt í fimm áratugi. Víða eru aðskilnaðarhreyfingar, sumar hverjar blóði drifnar, en áhrif þeirra fara þverrandi.

Enn furðulegra er, að Indland skuli hafa haldið leikreglum lýðræðisins allan þennan tíma. Aðeins einu sinni rambaði Indíra Gandhi á barmi einræðishneigðar, þegar hún gaf út tilskipun um neyðarlög, en varð síðan að lúta í lægra haldi fyrir leikreglum lýðræðisins.

Indverjar búa við dreifingu valdsins eins og við þekkjum hana á Vesturlöndum. Þeir hafa sjálfstæða dómstóla. Þeir hafa nánast einir þjóða í þriðja heiminum búið í ríki laga og réttar í samfellda fimm áratugi. Þetta er ekki síðra ævintýri en samheldni ríkisins.

Þriðja ævintýrið er, að hungursneyð er liðin tíð í Indlandi. Þótt mannfjölgun hafi verið þar gífurleg og íbúafjöldinn sé núna kominn upp í einn milljarð, getur ríkið brauðfætt fólkið í landinu af eigin landbúnaði. Hagvöxtur hefur verið hægur, en jafn og þéttur.

Mikil fátækt er að vísu í landinu. Margir eiga rétt til hnífs og skeiðar og fara á mis við lágmarksaðstæður í hreinlæti og öðru því, sem víðast telst til nauðsynja. Helmingur þjóðarinnar er ólæs. Óréttlæti og ójöfnuður er víða áberandi, en fer smám saman minnkandi.

Svo er komið um þessar mundir, að maður af flokki paría, lægstu stéttar landsins, er orðinn forsætisráðherra. Þannig hafa fornar siðareglur stéttaskiptingar smám saman vikið fyrir nútímanum. Börn fátæklinga eru komin í fremstu röð valdamanna í ríkinu.

Fornar hefðir hafa dregið úr hraða endurbóta í Indlandi. Útbreiddustu trúarbrögðin hafa verið þess eðlis, að þau hafa hamlað gegn endurbótum, til dæmis í réttlætismálum og heilbrigðismálum. Samt hefur Indverjum tekizt að staulast fram eftir framfaravegi.

Það spillti mjög fyrir hagþróun hins nýsjálfstæða ríkis, að flestir ráðamenn þess voru menntaðir í Bretlandi undir áhrifum félagsmanna í Verkamannaflokknum brezka, sem þá höfðu tröllatrú á ríkisrekstri og ríkisafskiptum og áttu eftir að valda miklum hagspjöllum.

Undir þessum áhrifum var komið upp umfangsmiklum ríkisrekstri og öðru ríkisrugli í Indlandi, sem enn er verið að vinda ofan af. Segja má, að áhrif brezka Verkamannaflokksins hafi áratugum saman legið eins og mara á Indlandi og drepið landshagi í dróma.

Samt eru Indverjar ágætir kaupsýslumenn og eiga auðvelt með að tileinka sér markaðslögmál nútímans, svo sem sjá má víða um heim. Því meira sem losað verður um hlekki ríkisafskipta, þeim mun meiri líkur eru á, að hagþróun verði ör og örugg í heimalandinu.

Með því að hafa í fimm áratugi lifað við kosti og galla lýðræðis eru Indverjar betur í stakk búnir en flestar þjóðir þriðja heimsins að mæta síbreytilegri framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV