Innanhúss­ágreiningur

Greinar

Í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna voru menn og eru ósáttir við meðferðina, sem Íslendingar fengu í viðskiptaráðuneyti landsins vegna hvalveiðimálsins. Þeir sáu áratuga ræktun samstarfs við Íslendinga hverfa í súginn vegna lítilfjörlegs viðskiptamáls.

Þetta er einungis örlítið dæmi af mörgum um, að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur ekki einn vilja. Þar er hver höndin uppi á móti annarri. Ráðuneytin fara sínu fram hvert fyrir sig án tillits til hinna. Ástandið er afleiðing stjórnleysis af hálfu Reagans forseta.

Nýlega seldu Bandaríkin fjögur milljón tonn hveitis til Sovétríkjanna og greiddu hvert tonn niður um þrettán dollara. Þar með glöddu Bandaríkin höfuðandstæðing sinn og rústuðu um leið efnahag bandamanna sinna í Ástralíu, sem ekki hafa efni á að greiða niður hveiti.

Schulz utanríkisráðherra varð ókvæða við og sagðist andvígur þessu háttalagi. En hagsmunir bandarískra hveitibænda fengu að ráða á kostnað samskipta Bandaríkjanna við vinveitt ríki. Þannig varð utanríkisráðuneytið að sæta eyðileggingu langvinnrar uppbyggingar.

Alvarlegast er þetta ástand í afstöðunni til viðræðna og samninga við Sovétríkin um takmörkun vígbúnaðar. Ágreiningurinn innan Bandaríkjastjórnar er raunar illvígari en ágreiningurinn við Sovétríkin og stendur í vegi fyrir, að samið sé um aukið alþjóðaöryggi.

Dæmigerður var fundurinn í síðustu viku í Moskvu, þar sem reynt var að undirbúa utanríkisráðherrafund heimsveldanna, er á að halda eftir tæpan mánuð. Moskvufundurinn átti upphaflega að vera fámennur og persónulegur, en varð að hálfgerðum fjöldafundi.

Í stað þriggja manna frá hvorum aðila mættu sjö fulltrúar Bandaríkjastjórnar. Það kom nefnilega í ljós, að hinar ýmsu klíkur urðu að hafa hver sinn fulltrúa. Sérstaklega var varnarmálaráðuneytinu í nöp við, að utanríkisráðuneytið eitt sæti að fundinum.

Weinberger, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, er róttækur sovéthatari, sem hefur um sig hirð manna, er draga ákaft í efa gildi og nauðsyn samninga við Sovétríkin. Hann fékk því framgengt, að harðlínumaðurinn Richard Perle fengi að vera með til eftirlits.

Ennfremur varð öryggismálanefnd forsetans að hafa sinn fulltrúa, svo og afturhaldssamir ráðgjafar hans. Afleiðingin var auðvitað, að nefndin í heild varð stefnulaus. Fulltrúarnir lágu hver á baki annars til að gæta þess, að þeir spiluðu engu út.

Mjög erfitt hlýtur að vera að semja við svona ósamstæðan hóp, þar sem sumir eru beinlínis andvígir samkomulagi ­ á þeim forsendum, að það leiði til andvaraleysis á Vesturlöndum. Það gerir bandaríska utanríkisráðuneytinu ókleift að fylgja mótaðri stefnu.

Stefnuráf Reagans milli hinna ýmsu sértrúarhópa í ráðuneytunum dregur úr trausti Vesturlandabúa á forustu Bandaríkjanna í samskiptum austurs og vesturs. Þannig skaðast Bandaríkin í vígbúnaðarmálunum eins og þau skaðast í hveitimálinu og hvalamálinu.

Við vitum, að stjórnleysið í Bandaríkjunum hefur spillt samskiptum ríkisins við Ísland. Við sjáum, að það spillir samskiptum þess við Ástralíu og raunar velflest vinveitt ríki. Verst er, að það dregur úr líkum á, að mannkynið lifi af vígbúnaðarkapphlaupið.

Á þessu ári hefur nýja Sovétstjórnin spilað út hverju friðar- og vinsældakortinu á fætur öðru, meðan Bandaríkjastjórn er óvirk vegna innbyrðis rifrildis.

Jónas Kristjánsson

DV