Hæstiréttur hindraði í fyrradag það gerræði fyrrverandi stjórnar Lyfjaverzlunar Íslands að afhenda einum aðila nærri 40% af hlutafé fyrirtækisins og leyfa honum síðan að samþykkja söluna sem 40% hluthafi, áður en hluthafafundur gæti tekið afstöðu til sölunnar.
Ýmis sérkennileg ummæli féllu í hita aðdragandans. Meðal annars kom fram sú kenning, að þeir, sem hindra gróða, séu skaðabótaskyldir, af því að þeir valdi tjóni. Hugsunin er sú, að maður verði fyrir tjóni, ef hugmyndir hans um skjótan gróða ná ekki fram að ganga.
Tjón er í rauninni mælanlegt mat á rýrnun efnislegra verðmæta. Takmarkanir í umhverfinu á möguleikum manna til að láta drauma sína verða að veruleika, verða seint flokkaðar undir tjón. Fjölmiðill væri tæpast skaðabótaskyldur, þótt hann varaði við skottulækni.
Tengd þessu var sú fjarstæðukenning, að verðgildi felist í gróðadraumum, sem menn setja niður á blað með morgunkaffinu. Ýmsa óra af því tagi megi flokka sem eins konar viðskiptavild og verðleggja í áætlunum og bókhaldi á hundruð milljóna króna, jafnvel tvo milljarða.
Í þriðja lagi kom fram sú undarlega skoðun, að þjónustusamningur við ríkið feli í sér skjóttekinn gróða, sem jafngildi stórum hluta veltunnar. Samt vita þeir, sem hafa gert þjónustusamninga við ríkið, að harðsótt er að ná jöfnu í slíkum viðskiptum, hvað þá meiru.
Staðreyndin á bak við allar þessar fullyrðingar var, að fyrrverandi stjórn Lyfjaverzlunarinnar afhenti hlutabréf fyrir loftkastala í draumaheimi og skaðaði þannig hagsmuni fyrirtækisins. Hæstaréttardómur og hluthafafundur hindruðu þessi róttæku afglöp í fyrradag.
Lága planið í röksemdafærslu þeirra, sem stóðu að grófri og misheppnaðri tilraun til yfirtöku Lyfjaverzlunarinnar er ekki einstakt í sinni röð. Ótrúlega margir virðast telja almenning vera bjána. Í fjölmiðlum má sífellt lesa hundalógík og útúrsnúninga af hálfu málsaðila.
Nýlega sagði grófyrtur formaður Lánasjóðs námsmanna, að sjóðurinn þyrfti ekki að taka mark á aðfinnslum umboðsmanns Alþingis, af því að hann væri bara fimmti lögfræðingurinn, sem hefði fjallað um málið. Hinir fjórir voru lögfræðingar á vegum lánasjóðsins.
Þetta minnir á fleyg ummæli fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forstjóra Landsvirkjunar, þegar hann taldi ríkið ekki þurfa að hlíta hæstaréttardómi, af því að samtals hefðu fleiri dómarar á ýmsum dómstigum stutt málstað ríkisins en verið á móti honum.
Einna djarfast og skemmtilegast komst forstjóri deCODE genetics að orði í umræðuþætti í sjónvarpi, þegar hann sagði, að fræðimaðurinn, sem sat á móti honum, væri ekki marktækur í málinu, því að hann ynni hjá háskólastofnun og gæti því haft hagsmuna að gæta.
Sjónvarpsmaðurinn, sem stjórnaði umræðunni, staðfesti skoðunina um, að Íslendingar væru bjánar, með því að láta hjá líða að spyrja forstjórann að því, hver væri meiri hagsmunaaðili í hagsmunamálum deCODE genetics en sjálfur forstjóri þess sama fyrirtækis.
Halldór Laxness gaf í Innansveitarkroniku ágæta lýsingu á sterkri stöðu útúrsnúninga og hundalógíkur í hugarheimi Íslendinga. Innansveitarkronika Lyfjaverzlunar ríkisins er enn ein birtingarmynd fjölbreytts frjálslyndis manna í umgengni við málsefni og málsrök.
Sérstaklega þarf varast ýmsa meinta sérfræðinga í fjármálum, sem framleiða marklaus gögn eftir þörfum og meta verðgildi til að þjónusta hóflausa gróðafíkn.
Jónas Kristjánsson
DV