Innfluttir Indverjar

Greinar

Þverspyrna læknafélagsins gegn innflutningi á indverskum lækni stafar ekki af ótta við, að hann kunni ekki fagið. Þvert á móti óttast félagið, að í ljós komi, að sá indverski sé hæfari en þeir, sem fyrir eru. Eins og í Bretlandi, þar sem hámenntaðir Indverjar eru að taka við læknisþjónustunni.

Bretar hafa góða reynslu af Indverjum á fleiri sviðum. Þeir eru að taka við hlutverki kaupmannsins á horninu, hugsa vel um viðskiptavininn og hafa alltaf opið, þegar hann kærir sig um að verzla. Þetta er iðið og heilsteypt fólk, sem vinnur sig ört til vegsemdar og virðingar í brezku samfélagi.

Við höfum fleiri dæmi um eftirsótta Indverja. Þýzka stjórnin ákvað að auglýsa eftir 10.000 indverskum tölvumönnum. Þeir áttu að verða ríkisborgarar með hraðferð gegnum kerfið, ef þeir vildu gera svo vel að nýta hæfni sína í þágu lands, sem hefur sjálft alið upp of fáa tölvumenn og tölvusnillinga.

Nú er ekki svo, að Indverjar séu einir um hituna. Margar rannsóknir í Bandaríkjunum sýna, að fólk frá Austur-Asíu stendur sig betur en heimamenn, fær hærri einkunnir í skólum, skilar meiru í vinnunni og klifrar þjóðfélagsstigann á sama hátt og Indverjar gera í Bretlandi og Þýzkalandi.

Okkur vantar raunar ekki bara einn indverskan lækni, heldur marga. Okkur vantar marga indverska kaupmenn á horninu. Og ekki síður marga indverska tölvusnillinga. Þeir þurfa ekki einu sinni að vera indverskir, heldur mega þeir líka vera frá Kína eða Taívan, Kóreu eða Japan, Víetnam eða Malasíu.

Aðalatriðið er að fá hingað menntað og duglegt fólk, sem spjarar sig. Það vilja hagsmunaaðilar hins vegar alls ekki. Helzt vilja menn fólk, sem kann ekki neitt, svo að hægt sé að manna færibönd í fiskvinnslu, hreinlæti í stofnunum og verkamannavinnu uppi á helfrosnum heiðum Austurlands.

Við eigum að losna við forneskju af þessu tagi, koma okkur upp vélmennum í fiskvinnslu og skúringum og hætta að niðurgreiða orkuframkvæmdir á heiðum og skak í álpottum niðri á Reyðarfirði. Með verndun færibandavinnu allt frá fiski yfir í ál erum við að hamla gegn bættum lífskjörum.

Bezt væri að leyfa frjálsan innflutning á fólki, sem hefur yfir 130 stig í viðurkenndu greindarprófi. Við þurfum ekki einu sinni að hjálpa því að koma sér fyrir, því að það biður bara um ríkisfang og vinnufrið í frjálsara þjóðfélagi en er á heimaslóðum þess. Það gerir þjóðfélagið ríkara og betra.

Ekki veitir af að fá nýja borgara til að halda þjóðfélaginu gagandi meðan heimafæddir tossar drepa tímann við að horfa á fullorðið fólk gera sig að athlægi í raunveruleikasjónvarpi.

Jónas Kristjánsson

DV