Innhverf gíslataka

Greinar

Verkföll eru ekki úrelt. Þau eru löglegt vopn þeirra, sem telja sig vera minni máttar í kjarasamningum. Þar sem afl peninganna er alltaf að aukast á kostnað afls vinnunnar, þar sem vinnukaupendur eru að verða sterkari en vinnuseljendur, má búast við, að verkfallsvopnið verði notað í framtíðinni.

Verkföll koma alltaf niður á þriðja aðila. Einkum verða smælingjar að líða fyrir þau, því að hinir hafa frekar einhverja útvegi fyrir sig. Þannig hellti Dagsbrún niður mjólk á Bæjarhálsi í gamla daga og var sökuð um að spilla heilsu barna. Þá voru meiri tilþrif í átökunum en núna

Verkfall er öðrum þræði gíslataka. Í verkfalli er alltaf skipuð undanþágunefnd. Það er viðurkenning á gíslatökueðli verkfalla. Sum gíslataka er talin óviðeigandi. Önnur er talin vera á gráu svæði og er það hlutverk undanþágunefndar að setja slík tilvik öðru hvoru megin við undanþágulínuna.

Þótt verkfall og gíslataka í tengslum við það sé löglegur verknaður, er hann afar fátíður hjá flestum hópum. Í gamla daga vakti athygli, að mjólkurfræðingar og flugliðar voru oftar í verkfalli en aðrir. Fólki fannst það vera til marks um, að kröfugirni þessara hópa væri komin út fyrir velsæmi.

Nú á tímum eru það kennarar, sem eru taldir vera of oft í verkfalli. Þess verður vart, að þeir njóta lítils stuðnings í samfélaginu. Menn telja líka gerræðislega að málum staðið, námsgögn nemenda séu ólöglega lokuð inni og neitað sé undanþágum til fatlaðra hópa, sem njóta almennrar samúðar.

Verkfall kennara er talið vera á of hörðum nótum. Sem dæmi um það gefur helzti forustumaður þeirra viðmælendum sínum einkunnir um greindarstig. Sjálfsagt er hann að tryggja heimalandið fremur en að afla málstaðnum fylgis úti í bæ. En það er einmitt innhverfan, sem einkennir verkfall kennara.

Kennarar virðast vera orðnir svo sér á parti í samfélaginu, að þeir telja brýnna að stunda hópefli með gassagangi inn á við, heldur en að eiga vitrænt samtal við samfélagið um málefni verkfallsins. Að minnsta kosti eru talsmenn kennara meira fráhrindandi út á við en þeir hafa áður verið.

Auðvitað er matsatriði hverju sinni, hvernig haldið er á verkfallsmálum. Stundum er hópeflið talið mikils virði, þar á meðal núna. Stundum eru almannatengslin talin mikils virði, en svo er ekki núna. Sem betur fer virðast kennarar þó vera farnir að endurskoða harðneskjuna í gíslatökunni.

Þótt forustumenn kennara komi óorði á verkfallsvopnið, hefur ekki verið sýnt fram á, að það sé óþarft. Einstök framkvæmd hefur alltaf og mun alltaf verða deiluefni í samfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV