Innhverft útvarp

Greinar

Athyglisvert er, að Ríkisútvarpinu gengur verr en öðrum fjölmiðlum að halda úti pistlahöfundum. Þar hriktir í meginstoðum, þegar pistlahöfundar segja skoðun sína eins og þeir eru ráðnir til að gera. Á öðrum fjölmiðlum verður ekki vart við þetta sérkennilega vandamál.

Einkum eru stóru dagblöðin full af lausum og föstum dálkahöfundum, sem sumir hverjir hafa róttækar skoðanir á umræðuefni sínu og kveða fast að orði. Enginn virðist hafa áhyggjur af þessu, enda er hver skoðun ekki nema hluti af stóru mynztri skoðanaskipta í landinu.

Á Ríkisútvarpinu og umhverfis það virðast menn ekki geta horft á þennan stóra skóg í heilu lagi, heldur eru uppteknir af að horfa á einstök tré, sem þeir segja, að valdi sér sífelldum vandræðum. Viðkvæmni af þessu tagi bendir til, að ritstjórnarkerfið sé ekki í lagi.

Af hverju fer Ríkisútvarpið ekki hina leiðina og biður Hannes H. Gissurarson að hvetja hnífana fyrir kosningar til mótvægis við Illuga Jökulsson? Það væri uppbyggilegra að hlusta á rökstuddar skammir þeirra en að þola marklaust geðveikisrugl á símanum í Þjóðarsálinni.

Í fátinu var Hannes líka látinn fara, að því er virðist til mótvægis við brottrekstur Illuga. Í stað þess að hafa hóp lausra og fastra dálkahöfunda, sem spanna fjölbreytileg sjónarmið og mismunandi milda framsetningu þeirra, situr Ríkisútvarpið uppi fátækast fjölmiðla á sviðinu.

Þetta skiptir litlu fyrir þjóðfélagsumræðuna í landinu. Ef hún minnkar á einum stað, eykst hún á öðrum, svo sem sést af þætti Marðar Árnasonar og Hannesar H. Gissurarsonar á Stöð 2. Heimurinn heldur áfram að snúast, þótt umræðan dofni um sinn í Ríkisútvarpinu.

Þeir aðilar, sem hafa staðið í að ónáða yfirmenn Ríkisútvarpsins, þar á meðal félagar í Útvarpsráði; svo og þeir yfirmenn útvarpsins, sem hafa látið ónáða sig út af þessu máli, líta of stórum augum á stofnunina. Þeir tímar eru löngu liðnir, að hún var yfirfjölmiðill landsins.

Ríkisútvarpið er bara einn af fjölmiðlum landsins, rekið meira eða minna í samkeppni við aðra fjölmiðla, sem eru svipaðir að burðum. Því fer fjarri, að fréttir og skoðanir í Ríkisútvarpinu ráði hugsun og hegðun landsmanna. Ekki heldur skoðanir Illuga og Hannesar.

Undarlegt er, að yfirmenn á Ríkisútvarpinu láta fólk segja sér, að það telji skoðanir í útvarpinu vera skoðanir stofnunarinnar. Engum dettur í hug að telja dálkahöfunda dagblaða vera slíkan stofnanamat, að hann ónáði ritstjóra dagblaða með úreltum kvörtunum af því tagi.

Mál þetta bendir til of mikillar innhverfu í ritstjórnarkerfi Ríkisútvarpsins, með Útvarpsráð og sveit forstjóra í broddi fylkingar. Ríkisútvarpið hefur aldrei verið nafli alheimsins og er það allra sízt nú á tímum frjásrar fjölmiðlunar, þegar skoðanir eru hvarvetna á boðstólum.

Þar að auki hefur Ríkisútvarpið fallið í þá gryfju að láta ónáða sig til að draga úr rökstuddum skoðanaskiptum á sama tíma og stofnunin hefur efnt til og haldið úti þeirri símaþvælu, sem fyrirferðarmest er í skoðanaskiptum í landinu, það er að segja Þjóðarsál á beinni línu.

Brottrekstur Illuga og Hannesar er enn eitt dæmið, sem bendir til, að úrelt sé orðið að reka Ríkisútvarpið á vegum ríkisins og eftirlitsmanna þess. Það kerfi, sem einu sinni þótti vera til bóta, er orðið úrelt og innhverft í langri og hraðri þróun fjölmiðlunar í landinu.

Ríkisvaldið á ekki að hafa afskipti af fjölmiðlun í landinu. Það hefur meira en nóg á sinni könnu, þótt það sé ekki að vasast í mati á gæðum pistla- og dálkahöfunda.

Jónas Kristjánsson

DV