Innmatur og afgangar í tízku

Punktar

FEITA ÖNDIN Í BRAY og Heston Blumenthal eru sögð vera bezt í heiminum. Það eru 600 kokkar, gagnrýnendur og veitingamenn, sem hafa búið til lista yfir 50 beztu veitingahús í heiminum, þar sem “Fat Duck” er í efsta sæti. Margir Bretar eru sælir með þetta, því að hingað til hafa fáir brezkir kokkar verið hátt skrifaðir á fjölþjóðlegum vettvangi.

SUMIR ERU EKKI SAMMÁLA þessum úrskurði, þar á meðal höfundar í brezka blaðinu Guardian. Zoe Williams segir, að valið á Blumenthal feli í sér, að verðlaunað sé fyrir skrítnar samsetningar á ódýrum afgöngum, sem séu í tízku um þessar mundir í heimi fínna veitingahúsa og viðskiptavina þeirra. Richard Jinman segir, að Blumenthal setji sardínur í krapísinn og beikon í rjómaísinn.

NÝRU, HJÖRTU, TUNGA OG LAPPIR, allt saman ódýrar aukaafurðir sláturhúsa eru í tízku í fínu veitingahúsunum. Hjá Arzak í Donestia í Baskalandi er saltfiskurinn borinn fram í súkkulaðisósu. Zoe Williams segir viðskiptavinina elska þetta, því að þannig verði þeir öðru vísi en annað fólk, sem vill nautasteik með bakaðri eða smálúðuflak með hvítum eða grænmetissalat með osti.

ÁÐUR DUGÐI AÐ PANTA KARRÍ, en núna kunna allir að borða upp á indversku, kínversku, tyrknesku og karabísku. Í stað þess að fleygja svínseyranu strax, sé eytt í það ómældum tíma til að gera það þolanlegt til átu og þar með hæft til verðlauna. “Ég fékk svínseyra í gær hjá Heston á Feitu öndinni”, segir fólk og er þar með komið í tölu innvígðra í bransanum.

ZOE ÞEKKIR EKKI ÞORRAMAT og vonast til, að þessu erfiða tízkuskeiði ljúki sem fyrst í matargerðarlistinni, því að hráefni á borð við lappir og tungu séu í eðli sínu bragðvondur matur. Þannig muni heimurinn lifa af tízkuna á Feitu öndinni, en Íslendingar verða áfram dæmdir til að slafra í sig súr svið og bringukolla til að sýna fram á þjóðrembu sína.

DV