Innrás kynninga

Greinar

Glóruleysa og veruleikafirring, oftast í tengslum við ofbeldi, virðast vera vinsælt efni kvikmynda nú á dögum, ef marka má rustalegar kynningar, sem birtast óviðbúnu fólki í auglýsingatímum sjónvarpsstöðva og fjalla ýmist um væntanlegt efni sjónvarpsrása eða kvikmyndahúsa.

Fullorðið fólk ræður auðvitað, hvort það fer í bíó og hvort það horfir á sjónvarpskvikmyndir, og getur forðað sér frá óhroðanum. En misbrestur er á, að þessu efni sé haldið frá börnum, einkum þeim börnum, sem sízt mega við því vegna erfiðra heimilisaðstæðna.

Leidd hafa verið rök að því, að gerviheimur kvikmynda hafi slæm áhrif á sum börn, sem eru í mestri hættu, af því að þau leika að mestu lausum hala vegna félagslegra aðstæðna. Þessi börn leita fyrirmynda og ofbeldisreynslu í veruleikafirrtum kvikmyndum.

Takmörk eru fyrir því, hvað ríkið getur gert til að koma í stað foreldra, sem ekki eru til taks eða sinna ekki uppeldi af öðrum ástæðum. Reynt er þó að hindra óheftan aðgang að kvikmyndahúsum og sjónvarpssýningar kvikmynda af þessu tagi fyrir klukkan tíu.

Mikilvæg viðbót við varnaraðgerðir þjóðfélagsins væri hugbúnaður, sem gerði fólki kleift að loka fyrir auglýsingar, sem sýndar eru fyrir og eftir fréttatíma sjónvarps og einkum þeirra, sem sýndar eru innan fréttatímans. Þessi innskot eru full af kynningum á kvikmyndum.

Hvimleitt er að geta ekki setzt niður til að fylgjast með nýjustu fréttum án þess að verða fyrir linnulausri skothríð sýnishorna úr kvikmyndum, sem virðast gerðar af geðveiku fólki fyrir geðveikt fólk. Fólk á rétt á að geta fengið í hendur varnarbúnað gegn þessu ofbeldi.

Hryllingur og ofbeldi fréttanna sjálfra er annars eðlis en hliðstæð atriði kvikmyndakynninganna. Ógnarfréttir eru í flestum tilvikum hluti einhvers raunveruleika, sem við þurfum að vita um sem borgarar í vernduðu og nánast lokuðu sérfélagi fjarri vandamálum nútímans.

Að vísu eru sumar hryllingsfréttir leiknar eða framleiddar. Til dæmis var Persaflóastríðið að mestu tilbúningur eins og fólk sá það á skjánum. Landganga bandamanna í Sómalíu var leikin kvikmynd með mörgum tökum. Uppþot eru oft framleidd fyrir sjónvarpsfréttir.

Raunverulegir eru hins vegar harmleikirnir í Bosníu og Rúanda, svo annars konar dæmi séu nefnd. Mestu máli skiptir, að hryllingur í sjónvarpsfréttum er annaðhvort raunveruleiki eða eftirlíking af raunveruleika, en ekki samþjappaðir órar langt utan alls veruleika.

Sjónvarpsfréttir eru líka yfirleitt tempraðar með aðgangi fólks að svipuðum fréttum í útvarpi og á prenti, þar sem minni hætta er á, að sýndarveruleiki sjónvarpstökuvéla trufli veruleika talaðrar eða ritaðrar frásagnar. Saga er sjón ríkari, þegar til kastanna kemur.

Fólk á rétt á að fá að sjá speglun sjónvarpsfrétta á góðum og vondum atburðum án þess að kæra sig um að sjá innskot af órum þeirra, sem framleiða og markaðssetja gersamlega veruleikafirrtar kvikmyndir, sem boðaðar eru í sjónvarpsdagskrám eða kvikmyndahúsum.

Því er haldið fram, að kynningarnar feli ekki í sér atriði, sem valda takmörkun á aðgangi barna og unglinga. Reynslan sýnir samt, að venjulegu fólki, sem ekki telur sig hafa þörf fyrir óra af þessu tagi, finnst sumu hverju þetta vera óþægileg innrás á heimilið.

Við viljum hugbúnað til að loka fyrir sjónvarpsauglýsingar, svo að við getum varið heimilin fyrir innrás geðsjúkra glæpamanna úr kvikmyndaheimi Kaliforníu.

Jónas Kristjánsson

DV