Innreið skynseminnar

Greinar

Jón Helgason búnaðarráðherra hefur til varnar búmarkinu sagt, að bændur séu að súpa seyðið af fyrri lögum, sem beinlínis hvöttu þá til framleiðsluaukningar og uppbyggingar. Hann og aðrir stjórnendur landbúnaðar hafa skyndilega snúið við blaðinu.

Eins og jafnan áður trúa bændur þá fyrst, er ráðherra þeirra og forustumenn ríða á vaðið. Sumir gæla við þá von, að þjóðfélagið hafi efni á að auka niðurgreiðslur, svo að neyzlan vaxi og geri niðurskurðinn sársaukaminni. Algengari eru þó raunsærri hugmyndir.

Komið hafa frá bændafundum kröfur um, að stéttinni verði lokað, svo að ekki verði fleirum steypt í ógæfuna, sem lána- og styrkjakerfi landbúnaðarins hefur búið ungum bændum. Þetta er skynsamlegt og verður bezt gert með að afnema lána- og styrkjakerfið.

Einnig hafa komið frá bændafundum tillögur um, að búmark geti gengið kaupum og sölum. Ætlunin er, að það auðveldi illa settum bændum að bregða búi og framsæknum bændum að stækka við sig, svo að rekstrarkostnaður á framleiðslueiningu verði minni.

Aðrir vara við, að slík verzlun verði stunduð milli héraða. Í því eins og öðru endurspegla skoðanaskiptin um búmarkið fjölbreytilegar hugmyndir um kvótakerfið í sjávarútvegi, svo sem greinilega hafa komið fram við val milli tilboða í gjaldþrota togara.

Ráðamenn, ráðunautar og bændur tala loksins í fullri alvöru um, að hér á landi sé aðeins afkomurými fyrir 1000 kúabændur í stað 2500, sem þjóðfélagið kostar um þessar mundir. Þeir segja líka, að afkomurými sé fyrir 2500 bændur alls í stað hinna 5000, sem nú eru.

Einhvern tíma hefðu þeir, sem slíkt segðu, verið kallaðir óvinir og jafvel hatursmenn bænda. Nú hrista bændur sjálfir hausinn út af ráðdeildarleysi lána- og styrkjakerfis, sem leitt hefur til, að fjárhús þeirra rúma meira en tvöfalda þörfina á húsrými fyrir sauðfé.

Fyrrverandi óvinir landbúnaðarins og núna síðbúnir spámenn hans standa agndofa yfir yfirlýsingum úr sjálfum landbúnaðinum um, að stjórnun hans hafi brugðizt og samdráttur hafi enn enginn orðið, þrátt fyrir brýna þörf. Menn hafa ekki búizt við skynsemi úr þeirri átt.

Svo langt gengur skynvæðingin, að frá bændafundum berast kenningar um, að mjólk eigi að framleiða nálægt markaði, en ekki fjarri honum. Lengst gengur hún þó í þeirri almennu skoðun innan lanbúnaðarins, að nýja reglugerðin um búmark hafi komið allt of seint.

Sérfræðingar landbúnaðarins hafa nú seint og um síðir komizt að raun um, að markaður fyrir mjólkurvörur og kindakjöt fari minnkandi og muni enn minnka á næstu árum. Hin sársaukafulla aðlögun, sem menn verði að þola á þessu ári, sé ekki nema hluti vandans.

Þessir menn segja, að mjólkurframleiðsla, sem mest varð 140 milljón lítrar á ári, þurfi að fara niður í 60 milljón lítra. Þeir segja, að sauðfé, sem mest varð 900 þúsund að tölu, þurfi að fara niður í 400 þúsund. Tölurnar sýna, að þetta eru engir auðveldir smámunir.

Kerfið er farið að sárbiðja bændur um að bregða búi. Í fyrra keypti það 24 þúsund ærgildi á allt að 1750 krónur eintakið af rúmlega 100 bændum. Á fyrsta mánuði þessa árs hafa 9000 ærgildi verið keypt. Þessi viðleitni kostaði okkur 150 milljónir í fyrra.

Enn eiga menn þó eftir að viðurkenna, að bændum þurfi ekki aðeins að fækka úr 5000 í 2500, heldur sé í raun einungis afkomurými fyrir um 1000 bændur.

Jónas Kristjánsson

DV