Innsetning í hversdagslegt sæti

Greinar

Merkilegt rannsóknarefni felst í aðdragandanum að innsetningu Guðrúnar Pétursdóttur, fyrrum forsetaframbjóðanda, í níunda sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík í vor. Málið hefur tæpast enn verið upplýst í fjölmiðlum.

Spásagnir um innsetninguna hófust á umræðu um áttunda sæti listans, sem hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera baráttusæti hans. Það skilur á milli feigs og ófeigs. Annar hvor framboðslistinn nær áttunda sætinu inn og verður þar með í meirihluta á næsta tímabili.

Eðlilegt hefði verið, að borgarstjóraefni flokksins, Árni Sigfússon færi í áttunda sætið. Þar með hefði hann brotið brýr að baki sér á sama hátt og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem skipar það sæti á Reykjavíkurlistanum. Hann hefði barizt við hana á jafnréttisgrundvelli.

Hins vegar er síður en svo nokkuð við það að athuga, að borgarstjóraefni sé í efsta sæti listans og leiði hann þannig í bókstaflegri merkingu. Það getur hins vegar verið vandamál fyrir borgarstjóraefnið, ef sá, sem skipar áttunda sætið er talinn hafa unnið kosninguna.

Ef Guðrún hefði farið í áttunda sætið og Sjálfstæðisflokkurinn mundi vinna sætið, teldist Guðrún vera sigurvegari kosninganna og eðlilegt borgarstjóraefni umfram Árna. En nú er hún komin í hversdagslegt níunda sæti listans og segist styðja Árna sem borgarstjóra.

Þar með fellur í bili söguskýringin um, að ráðandi öfl í flokknum séu búin að afskrifa möguleika Árna og telji líklegra að Guðrún geti keppt við ljómann af Ingibjörgu Sólrúnu. Svo er að sjá, sem það verði áfram hlutverk Árna að vera borinn saman við Ingibjörgu Sólrúnu.

Spurningin er þá sú, hvort einhver í efstu átta sætunum verði á næstu mánuðum fenginn til að veikjast eða hljóti einhvern þann starfa, sem geri honum ókleift að skipa sætið. Með slíkum hætti gæti Guðrún “óvart” komizt í áttunda sætið og söguskýringin endurvakizt.

Kremlólógía af slíku tagi hentar vel Sjálfstæðisflokknum, sem minnir að ýmsu leyti á kommúnistaflokk Sovétríkjanna sálugu. Mönnum er það minnisstætt, að Guðrún og Davíð Oddsson voru talin þurfa að hittast út af ráðgerðri innsetningu Guðrúnar á framboðslistann.

Guðrún og Davíð höfðu fyrir manna minni verið ósammála um ráðhúsið í Tjörninni. Svo virðist sem langrækni sé talin svo eðlileg í Sjálfstæðisflokknum, að frambjóðandi í áttunda eða níunda sæti þurfi sérstaka syndaaflausn og handayfirlagningu formannsins.

Brandaraferli af slíku tagi þekkist tæplega í venjulegum stjórnmálaflokkum. Það getur varla talizt heppilegt nesti inn í stjórnmál í borgaralegu fjölveldisþjóðfélagi, þar sem vald landsföðurins er ekki lengur talið vera runnið frá Guði, heldur frá almenningi.

Niðurstaða syndaaflausnarinnar var sú, að flokksformaðurinn lét það boð út ganga, að hann styddi framboð Guðrúnar. Í ljós kom hins vegar, að erfitt var að hrófla við frambjóðendum, sem höfðu fengið góðan stuðning í átta efstu sæti listans, einu sætin, sem máli skiptu.

Það hlýtur að teljast mikið haft fyrir litlu sæti að ganga á fund flokkspáfans til að fá syndaaflausn. Þar með tapast heiðursmerkið, sem felst í að vera verður langrækni af hálfu valdamanns. Og seint verður níunda sætið talið bæta stöðu kvenna á framboðslistanum.

Niðurstaðan er, að enn hefur ekki fundizt frambærileg skýring á fyrirferðarmiklu ferli, sem leiddi til innsetningar Guðrúnar í hversdagslegt níunda sæti listans.

Jónas Kristjánsson

DV