Nicholas D. Kristof, nýkominn frá Írak, skrifar í New York Times, að fólkið í landinu sé andvígt hernámsliðinu, þótt það hafi áður hatað Saddam Hussein. Fólk segir ástandið í landinu vera verra nú. Fáir þora að vera á ferli eftir að skyggja tekur, af því að löggæzla er lítil sem engin. Heilbrigðisstofnanir eru meira eða minna óstarfhæfar. Þetta er svipuð sagan og í Afganistan, nema hvað óöldin í kjölfar hernáms Bandaríkjanna skall skarpar á Írak. Stríðið vinnst, en friðurinn tapast.