Krárnar eru hálfar og auðum íbúðum fjölgar í fjölbýlishúsum Íra í New York. Í meirihluta írskra stórfjölskyldna þar í borg er einhver farinn heim til Írlands eða að undirbúa brottflutning. Bandaríkin eru ekki lengur fyrirheitna landið í augum soltinna Íra. Þeir sjá nú betra líf í gamla landinu.
Írland varð efst á blaði í nýrri könnun um, hvar sé bezt að lifa í heiminum. Áður hafði Frakkland notið þessa heiðurs í annarri könnun. Kanada og Nýja-Sjáland eru á uppleið, enda líta þangað hýru auga margir þeir Bandaríkjamenn, sem telja, að stjórn Bush sé að fara með Bandaríkin til andskotans.
Slíkar kannanir eru vafasamar heimildir, en segja okkur þá sögu, að efnahagsleg velgengni, mæld í þjóðartekjum á mann, er ekki góður mælikvarði á hamingju almennings. Menntun og heilbrigði, góður matur og frjálslynt stjórnarfar og margt fleira þarf að taka til greina í samanburði á ríkjum.
Þótt Bandaríkin hafi haft 3% hagvöxt upp á síðkastið, en Evrópusambandið 2%, verður að hafa í huga, að Evrópa gerir meira fyrir framtíðina. Í Bandaríkjunum þurfa fyrirtæki að sýna hagnað ársfjórðungslega og taka því lausnir til skamms tíma fram yfir langtímalausnir á borð við umhverfisvernd.
Evrópubúar spara, en Bandaríkjamenn alls ekki. Í staðinn taka Bandaríkjamenn lán í útlöndum. Erlendir peningar og lækkandi gengi dollars standa undir hagvexti þar í landi. Og félagsleg velferð er á miklu lægra plani en í Vestur-Evrópu, þar sem hagstefnan hefur verið félagslegur markaðsbúskapur.
Þótt Evrópa og Bandaríkin séu greinar af meiði vestrænnar markaðshyggju, er hún tempraðri í Evrópu. Dólgsleg auðhyggja Bandaríkjanna á ekki upp á pallborðið í Evrópu, þar sem hægri sinnaður flokkur á borð við kristilega demókrata í Þýzkalandi gaf þjóðinni félagslega kanzlarann Ludwig Erhard.
Stöðugt ris evrunnar er gott dæmi um, að evrópsk mildi er efnahagslega frambærileg hagfræðistefna. Ekki þarf að rústa jafnrétti í menntun, heilbrigði og annarri velferð til að vera samkeppnishæfur á alþjóðlegum markaði. Ekki þarf að rústa umhverfinu til að geta staðið sig á líðandi stund.
Ísland flýtur með í félagslegum markaðsbúskap Evrópu. Lög og reglugerðir Evrópusambandsins gilda hér á landi í auknum mæli. Fáir stjórnmálamenn hampa bandarískum lausnum á kostnað evrópskra, þótt suma dreymi um að einkavæða menntun og heilsugæzlu og draga á annan hátt úr félagslegri velferð.
Á næstu árum mun spenna vaxa milli vaxandi dólgaauðvalds í Bandaríkjunum og félagslegs markaðsbúskapar í Evrópu. Í þeim átökum mun okkur farnast eins og Írum, sem nú flýja heim.
Jónas Kristjánsson
DV