Frá Helgaskála við Stóru-Laxá til Hólaskógar við Þjórsá.
Leiðin fylgir að mestu línuvegi, nema fyrst og síðast. Hún liggur þvert yfir afréttir hreppamanna og skeiðamanna, en lítið er um gróður á leiðinni, nema í nágrenni við skálana tvo. Af leiðinni liggja langleiðir um afréttir, helzt dráttarvélaslóð við Ísahrygg til skálana Sultarfitja og Skeiðamannafitja.
Meginaðdráttarafl leiðarinnar er Háifoss í Þjórsárdal. Frá leiðinni, þegar komið er yfir Fossá, er aðeins skammur spölur fram á bjargbrún andspænis Háafossi í Fossá. Háifoss er einn af hæstu fossum landsins, 122 metra hár í einni bunu. Innar í gilinu er annar foss samhliða og heitir sá Granni. Þessir fossar eru meðal náttúruundra landsins.
Förum frá Helgaskála í 450 metra hæð og fylgjum slóð austan við Stóru-Laxá, suðaustur yfir Tangahorn og yfir ána, um Sandver. Áfram suðaustur með línuvegi norðan Tjaldfells að Ísahrygg, þar sem við tökum krók til suðurs áður en við förum upp á hrygginn í 590 metra hæð. Áfram förum við niður af hryggnum og til suðausturs norðan við Hellukrók og sunnan við Stórás. Þegar við komum að Kolli tökum við syðri slóðina yfir Fossá og að afleggjara niður að Háafossi. Að lokum förum við suður og niður af heiðinni vestan Stangarfellsaxlar og komum að fjallaskálanum Hólaskógi í 280 metra hæð.
25,8 km
Árnessýsla
Skálar:
Helgaskáli: N64 17.182 W19 53.594.
Fitjaásar: N64 14.650 W19 46.910.
Hólaskógur: N64 10.192 W19 40.557.
Jeppafært
Nálægir ferlar: Laxárgljúfur, Fjallmannaleið, Sultarfit, Gjáin-Stöng, Hraunin.
Nálægar leiðir: Svínárnes, Leirá, Þjórsárdalur, Skúmstungur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson