Íslam á bágt

Greinar

Veðurfræðingurinn í sjónvarpinu í Marokkó endar með því að segja, að svona verði veðrið, ef Allah lofar. Íslömsk þjóð, sem er svo frjálslynd, að áfengi fæst á öðru hverju kaffihúsi, gefur konum aðeins hálfan arfhlut á við karla, af því að kóraninn er sagður banna jafnrétti.

Í Marokkó hefur ekki orðið sá aðskilnaður ríkis og trúar, sem stuðlar að framgangi vísinda og tækni. Þar skammtar einvaldskonungur lýðræði og málfrelsi úr hnefa. Þar neitar ríkið sér um hagkvæmni jafnréttis kynjanna, sem þykir vera sjálfsagt á Vesturlöndum.

Frumkristnin var trú þræla og einkum kvenna, svo sem enn má sjá af kirkjusókn í kaþólskum löndum. Kristnin er sveigjanleg og hefur getað beygt sig fyrir þrýstingi. Meðal annars sættir hún sig við að spila aðra fiðlu í veraldlegri sinfóníu þjóðskipulagsins á Vesturlöndum.

Íslam var hins vegar hermannatrú, hlaðin karlrembu, svo sem enn má sjá af moskusókn í íslömskum löndum. Hún er einföld og ósveigjanleg og hefur átt erfitt með að víkja fyrir veraldlegri efnishyggju, sem flæðir að vestan um heim íslams eins og önnur svæði þróunarlanda.

Sem trú sigurvegarans hefur íslam átt erfitt með að bíta í það súra epli, að heiminum sé að mestu stjórnað af Vesturlöndum, sem eru í senn kristin og heiðin. Áhangendum íslams sárnar, að tæknivædd og auðug Vesturlönd skuli geta valtað kruss og þvers yfir trúarsvæði íslams.

Margir verða til að sá eitri í þennan jarðveg. Harðstjórar verja völd sín með því að gæla við trúna. Saddam Hussein gerðist trúaður á einni nóttu, þegar hann taldi sig þurfa á því að halda. Konungsættin í Sádi-Arabíu eys árlega ótrúlegum fjármunum í trúarofstækisskóla.

Ofstækisfullt Ísraelsríki var rekið eins og fleinn í þetta viðkvæma hold. Í sjónvarpinu sjá menn dag eftir dag og ár eftir ár hryðjuverk og ofbeldi Ísraels gegn Palestínumönnum. Allir íslamar vita, að Bandaríkin hafa árum saman haldið Ísrael uppi með peningum og vopnum.

Vítahringurinn er sáraeinfaldur. Aðstæður og umhverfi framleiða vanmáttartilfinningu, sem leiðir unga menn í trúarskóla á vegum Sádi-Arabíu, þaðan sem þeir útskrifast sem ofsatrúaðir Wahhabítar og sumir hverjir sem froðufellandi efni í skæruliða og hryðjuverkamenn.

Ef Sádi-Arabinn og Wahhabítinn Osama bin Laden verður handtekinn, verður hann að píslarvotti. Hann verður að dýrlingi, ef hann verður drepinn. Fyrir hvern Osama bin Laden, sem hverfur af vettvangi, spretta upp tíu aðrir, rétt eins og skrímslin í sögunum.

Vandinn er stærri en svo, að hann verði leystur með hagkvæmnisbandalagi við hryðjuverkamenn í Pakistan, harðstjóra í Úsbekistan og fíkniefnasala í Norðurbandalagi um að velta talibönum úr sessi í Afganistan. Vandinn felst í misvægi og misþroska menningarheima.

Vesturlönd og einkum Bandaríkin hafa hamlað gegn lýðræðisþróun og veraldarhyggju í löndum íslams með því að styðja þar afturhaldssama harðstjóra, sem misnota trúna sér til framdráttar, og með því að styðja ofsatrúaða Ísraelsmenn til hryðjuverka í miðjum heimi íslams.

Vesturlönd geta því aðeins bægt hættu hryðjuverka frá sér, að þau rétti sáttahönd til íslams og reyni að finna friðarferli, sem auðveldi innreið lýðræðis, auðsældar og efnishyggju. Fólkið í þessum löndum mun reynast vilja taka mannsæmandi líf fram yfir froðufellandi trú.

Það dregur hins vegar síður en svo úr hættu á hryðjuverkum á Vesturlöndum að henda sprengjum á úlfaldarassa í Afganistan og hæfa þá ekki einu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV