Ísland styður ofbeldi

Greinar

Ísraelsríki er komið á sama helveg og Suður-Afríka. Í þingkosningum Ísraela í síðustu viku færðist fylgi frá sáttaöflum til róttækra þjóðernissinna og trúarofstækismanna. Slík öfl virðast jafnan ná betur eyrum kjósenda, þegar hið opinbera er komið á braut hryðjuverka.

Í kosningunum jókst fylgi Likud-bandalagsins, sem stjórnað er af gömlum Irgun og Stern Gang hryðjuverkamönnum á borð við Shamir forsætisráðherra og nýjum hryðjuverkamönnum á borð við Sharon, sem sennilega verður varnarmálaráðherra nýrrar stjórnar.

Enn öflugra var gengi trúarofstækisflokka í kosningunum. Fjórir klerkaflokkar náðu mönnum á þing. Í öllum tilvikum eru þeir flokkar hlynntir auknu ofbeldi og hryðjuverkum gegn Palestínumönnum. Og Shamir þarf stuðning klerkanna við myndun hinnar nýju stjórnar.

Öll hryðjuverk eru af hinu illa. En verst eru þau hryðjuverk, sem stjórnvöld fremja í skjóli valdsins. Þau eru verri en hryðjuverk, sem einstakir sérvitringa- og sértrúarhópar fremja í skjóli vanmættis. Hin opinberu hryðjuverk eru orðin að einkennistákni Ísraelsríkis.

Stjórnarfar í Ísrael er orðið með hinum verri í heiminum. Það er verra en í austantjaldsríkjunum og verra en í mörgum löndum þriðja heimsins. Sjaldgæft er, að ríki sendi hersveitir til að drepa börn og unglinga, sem kasta grjóti. En það er daglegt brauð á herteknu svæðunum.

Ísrael hefur gert sig að æxli í umheiminum. Æxlið hefur fengið að magnast í skjóli eindregins stuðnings Bandaríkjastjórnar. Áróðursstofnun Ísraels í Banda ríkjunum, Aipac, er orðin svo árhrifamikil, að stjórnmálamenn þar vestra keppast um að styðja Ísrael.

Hryðjuverkamönnum Ísraelsríkis hefur nú borizt stuðningur úr óvæntri átt, þar sem er utanríkisráðherra Íslands. Hann hefur lagzt á þagnarsveifina með sextán öðrum ríkjum, meðan fulltrúar 130 ríkja heims greiddu atkvæði gegn tvístirni Ísraels og Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherrann hefur sér til afsökunar, eins og í nokkrum öðrum sérkennilegum afgreiðslum á atkvæði Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, að hafa aðeins fengið hálftíma fyrirvara. Með því er hann að segja, að sendinefnd okkar hjá stofnuninni sé ekki starfi sínu vaxin.

Utanríkisráðherrann hefur sér til afsökunar, að orðalag tillögunnar, sem nú var samþykkt, hafi verið annað en orðalag tillögunnar, sem fyrirrennari hans lét sendinefndina styðja fyrir ári. Ekkert hefur þó komið fram, sem bendir til, að nýja orðalagið halli réttu máli.

Hugsanlegt er, að utanríkisráðherrann sé ekki með málefni Palestínu í huga, þegar hann stillir Íslandi upp við alþjóðavegginn, heldur sé hann að reyna að gleðja Bandaríkjastjórn út af viðkvæmum ágreiningi í hvalveiðimálinu. Það væri fremur kaldranaleg skýring.

Ennfremur er hugsanlegt, að utanríkisráðherrann sé í senn að undirbúa kosningar og að storka samstarfsflokkunum í ríkisstjórn Íslands, sér í lagi forsætisráðherra, sem var utanríkisráðherra fyrir ári og lét sendinefndina þá taka málefnalega afstöðu í Palestínumálinu.

Líklegast er þó, að utanríkisráðherra vilji, að meira sé tekið eftir persónu hans á alþjóðlegum vettvangi. Sá vilji hans hefur áður komið fram í fjölþjóðasamstarfi jafnaðarflokka. Aðferð hans er hin sama og filmstjarnanna ­ að koma mönnum í opna skjöldu úr óvæntri átt.

Altjend er dapurlegt, að íslenzkur utanríkisráðherra skuli, með einleik upp kantinn, láta Ísland styðja hryðjuverkamenn, sem eru allra góðra manna andstyggð.

Jónas Kristjánsson

DV