Íslandsklukka í útlegð

Greinar

Tveir stjórnmálamenn boðuðu hér í blaðinu í fyrradag, að ríkisvaldið mundi sitja með hendur í vösum og ekkert hafast að til að ná til landsins átta alda gamalli kirkjuklukku, sem hefur verið í útlegð í London. Vildu þeir láta þjóðina spreyta sig á 650.000 króna smásöfnun.

Rétt er, að upphæðin ætti að vera lítil í augum þjóðar, sem hefur náð úr útlegð síðasta geirfuglinum og Skarðsbók. Reynir nú á, hvort sögutilfinning okkar nær til Íslandsklukku þessarar, sem er sennilega merkasti forngripurinn, sem nú er unnt að endurheimta að utan.

Athyglisverður tvískinnungur kom þó fram í ummælum stjórnmálamannanna. Menntaráðherra afsakaði aðgerðaleysi sitt með, að “menntamálaráðuneytið hefur … ekki úr digrum sjóðum að spila”. Ráðuneyti hans veltir rúmlega tíu milljörðum króna árlega.

Sami ráðherra sagðist um daginn “blása á” þær tæpu hundrað milljónir, sem einhverjir kvörtuðu um, að væri kostnaður umfram áætlun við byggingu Listasafns ríkisins. Var í því máli þó rætt um hugsanlegan skort á ráðdeild eða nákvæmni í meðferð opinberra peninga.

Af þessu mætti ætla, að útgjöld til einstakra þátta menntamála yrðu annaðhvort að fara yfir einhver peningamörk eða út í nægilegt sukk til að hrífa menntaráðherrann. Lítil og

sukklaus fjárhæð til að kaupa litla og gamla klukku kveikir ekki hugsjónaeld ráðherrans. Formaður fjárveitinganefndar afsakaði sig með, að nefndin “hefði ekki heimild til að úthluta fé í kaup sem þessi”. Það er út af fyrir sig rétt, en virðist bara gilda um klukkuna, en ekki þegar um er að ræða alvörumál, sem formaðurinn og aðrir leiðtogar telja brýn.

Aukafjárveitingar skipta tugum á hverju ári og nema yfirleitt margföldu klukkuverði. Sú notkun peninga, sem ekki eru til, er, eins og annarra peninga ríkisins, á vegum Alþingis og fjárveitinganefndar þess. Það er Alþingi, sem setur lög og aukalög, en ekki ríkisstjórn.

Sumar þjóðminjar njóta þegjandi samkomulags ríkisstjórnar og fjárveitingavalds um meðferð brýnna mála. Mörgum sinnum á hverju ári þarf utan fjárlaga að verja hundraðföldum klukkuverðum til að tryggja rekstur dýrustu þjóðminjanna, hins hefðbundna landbúnaðar.

Ríkisstjórnin, Alþingi og fjárveitinganefnd þess ákveða hverju sinni, hvenær beita skuli afbrigðum eða láta þau viðgangast. Framangreindar tilvitnanir gætu bent til, að stjórnmálamennirnir tveir ætluðu að standa fyrir nýrri og siðlegri meðferð á fé skattborgaranna.

Ef hins vegar kemur í ljós, að áfram verður beitt aukafjárveitingum, verður ekki komizt hjá að álykta, að stjórnmálamennina tvo skorti áhuga á að stuðla að heimkomu hinnar átta alda gömlu Íslandsklukku. Yfirlýsingar þeirra um annað reynast þá vera hræsni.

Auðvitað verður þjóðin að grípa sjálf í taumana og ná klukku Tröllatungukirkju úr útlegð. Þessi klukka er frá miðri tólftu öld og var hluti af lífi og dauða þjóðarinnar í hálfa áttundu öld, unz hún lenti með öðrum kirkjumunum á uppboði í byrjun þessarar aldar.

Ef þjóðin gefur sér klukkuna, er það góð áminning til landsfeðra um, að fólk lítur niður á skeytingarleysi þeirra um íslenzkar minjar, bæði þjóðminjar og náttúruminjar, sem endurspeglast í lélegum og engum aðbúnaði að söfnum, sem ætlað er að hýsa þessar minjar.

Skorað hefur verið á þjóðina að leysa kirkjuklukkuna út til Íslands fyrir 650.000 krónur. Sómi okkar býður, að við vinnum það til skilnings á eigin þjóðarsögu.

Jónas Kristjánsson

DV