Jón Þorsteinsson læknir:
Íslandshandbókin er nærtækasta lesning þeirra, sem vilja kynna sér söguna og landið áður en þeir fara í hestaferðir. Þar er landinu skipt niður í sýslur og örnefnum sýslunnar raðað í stafrófsröð. Sagt er frá hverju örnefni í stuttri klausu, þar sem stiklað er á stóru.
Herforingjaráðskortin má einnig telja skyldulesningu. Þar eru sýndar hefðbundnar reiðleiðir og örnefni, sem tengjast þeim. Ég get ekki hugsað mér að fara í hestaferð á annan hátt en að hafa slík kort af leiðinni meðferðis.
Sumar árbækur Ferðafélagsins eru ágætar heimildir fyrir hestamenn á ferðalögum. Þær yngri eru ítarlegri, en hins vegar ekki samdar af mönnum, sem fóru um landið á hestbaki. Sjónarhorn höfundar eldri bókanna er hins vegar yfirleitt hestamannsins.
Ferðabækur Þorvaldar Thoroddsen frá árunum 1882-1898 og Sveins Pálssonar frá 1791-1797 eru afar mikilvægar heimildir um reiðleiðir og örnefni á reiðleiðum. Sömu ættar eru Sóknarlýsingar frá miðri 19. öld, sem Jónas Hallgrímsson bað presta landsins um að setja saman. Í þeim er fjallað um örnefni og leiðir innan sókna, en síður um leiðir milli sókna og héraða, sem fjallað er um í ferðabókunum.
Ein ferðabók önnur er líka góð heimild, Íslandsferð eftir Konrad Maurer frá 1858, þar sem er til dæmis mikilvægur kafli um Sprengisand. Sú bók var gefin út á íslenzku hjá Ferðafélagi Íslands árið 1999.
Landnáma er merkileg heimild um örnefni og hestaferðir, sérstaklega um Kjöl. Þar er fjallað um Flugu, hryssuna góðu, og sagt frá ferðum þræla úr Skagafirði suður á Kjöl.
Njála er full af hestaferðasögum. Þar er til dæmis lýst ferð Flosa og brennumanna frá Svínafelli í Öræfum til Bergþórshvols í Landeyjum. Af þeirri frásögn má ráða, að Mýrdalsjökull hafi verið minni en nú, því að Flosi komst af Mælisfellssandi niður í Goðaland.
Af fornritunum er hestamanninum mestur fengur í Sturlungu. Hún er skrifuð af mönnum, sem tóku þátt í langferðunum, sem lýst er sumum hverjum mjög nákvæmlega, meðal annars yfir Kjöl og Tvídægru. Þar eru frækilegar ferðasögur, svo sem vetrarferð Þórðar kakala frá Þingvelli vestur í Breiðafjörð og ferð Kolbeins unga sama daga úr Miðfirði yfir Tvídægru vestur í Hvítársíðu og síðan á eftir Þórði vestur Mýrar. Á leið sinni frá Þingvelli til Helgafells riðu menn Þórðar einhesta um 200 kílómetra leið á rúmlega 30 klukkustundum, enda var um líf og dauða að tefla.
Mér finnst athyglisvert af frásögnum Njálu og Sturlungu, að fornmenn fóru miklu beinna en við gerum nú. Þeir styttu sér leið í stað þess að velja þægilegar slóðir. Þeir létu sér ekki bregða við að sundríða ár til að spara sér króka á vöð. Oft riðu þeir hreinlega sem mest beint af augum.
Það er líka ljóst, að þeir voru harðgerðari ferðamenn en við erum nú á tímum og hestar þeirra í betri þjálfun. Söguhetjurnar riðu hiklaust um 100 kílómetra á dag, oft einhesta. Þeir sváfu ekki heilu næturnar, en köstuðu sér niður til að sofa smástund í senn. Þeir voru blautir og hraktir af rigningum og vatnareið, en létu það ekki aftra för sinni, enda hafa þeir verið í efnismiklum vaðmálsfötum. Höfðingjar þess tíma hafa verið vanir vosbúð og fundist hún vera eðlilegur þáttur á sífelldum ferðalögum þeirra.
Þeir voru mjög fljótir að koma sér af stað. Þegar Kolbeinn ungi fréttir af ferðum Þórðar kakala með 200 manns í Skálholt, þar sem hann kúgar Sunnlendinga til hlýðni, safnar Kolbeinn í skyndingu fjölmennu liði um allt Norðurland, allt austur í Þingeyjarsýslur. Hann fer síðan með rúmlega 700 manns um hávetur í stórhríð og hrakningum um Tvídægru á einum sólarhring til að reyna að hafa hendur í hári Þórðar.
Sá, sem hefur lesið fornsögur, þjóðsögur og ferðabækur frá svæðum þeim, sem farið er um í hestaferðum, fær miklu dýpri innsýn í landið og fær miklu meira út úr ferðinni en hinir, sem láta sig söguna og landið minna varða. Sérhver dagleið hestaferðamanns er full af sagnfræði, landafræði og þjóðsögum. Íslandssagan er við hvert hófmál.
Jónas Kristjánsson skráði
Kolbeinn ungi
veitir Þórði
kakala eftirför
“Er þeir fóru upp úr Gnúpsdal lét Kolbeinn ungi telja lið sitt og var vel sex hundruð manna.”
“Er á leið daginn tók að frysta. Hljóp þá veðrið í norður. Gerðist þá hríð svo grimm sakir myrkurs og frosts að sjaldan verða þvílíkar. Leið eigi langt áður þeir vissu eigi hvar þeir fóru. Dróst þá liðið mjög af kulda. Bað Kolbeinn menn þá stíga af baki og taki menn glímur stórar og viti ef mönnum hitnar við það.”
“Tók þá heldur að birta veðrið. Kenndust þeir þá við að þeir voru komnir á vatn það er Hólmavatn heitir. Hóf þá hver annan á bak. Fóru þeir þá þar til er þeir komu á Gilsbakka nokkru fyrir dag.”
“En er Þórður kakali kom ofan í Reykjardal að Englandi þá kom í móti honum Þórður Bjarnason og segir honum að Kolbeinn var norðan kominn með fjölmenni.”
“Reið þá Þórður ofan eftir dal og ætlaði yfir um á að Gufuskálum og svo vestur Langavatnsdal. En er hann kom ofan á Völlu þá var sagt að eigi var hrossís yfir ána. Sneri þá flokkurinn allur upp til Grafarvaðs.”
“Reið Börkur þá með Þórði upp til Grafarvaðs. En er hann sneri ofan aftur heyrði hann til hvorstveggja flokksins, Þórðar og Kolbeins.”
“Þórður reið út á Mýrar með allan flokkinn og var allill færð.”
“Kolbeinn reið nú í Stafaholt. Þar fengu þeir sanna njósn af um ferðir Þórðar og riðu þá eftir sem ákafast.”
“Höfðu þeir Kolbeinn þá skeiðreitt eftir stígnum.”
“Tók þá og svo að batna færðin að þá var allt skeiðreitt. Þórður bað þá menn fara í kirkju er þrotna höfðu hesta.”
“Brú var á Álftá og var þar seinfært yfir.”
“Þegar Þórður var burt riðinn úr Álftártungu þá koma þegar flokkurinn Kolbeins.”
“Síðan tóku þeir eftirreið sem ákafast. En er þeir komu að Álftá varð þeim eigi þar greiðfært yfir því að Þórður hafði látið af draga brúna.”
“Bar þá enn undan. Kolbeins menn tóku þá drjúgum menn af Þórði er hestana þraut.”
“En er Þórður leið út á vaðlana þá sáu þeir Kolbeins menn að undan mundi bera og hurfu þá aftur.”
“Þótti þá öllum mikil furða og varla dæmi til finnast að menn hefðu riðið hinum sömu hestum í einni reið af Þingvelli og til Helgafells í svo miklum ófærðum sem þá voru. Þórður reið fimmtadag um hádegi af Þingvelli en kom til Helgafells föstunóttina er stjarna var í austri.”
“Reið Svarthöfði undan sem ákafast en þeir eftir og kvíuðu hann fram á hamri nokkrum. Hann hratt þar fram af hestinum og hljóp þar sjálfur eftir. Það var hár hamar en hvorki sakaði hann né hestinn því að mikill lausasnjór var borinn undir hamarinn. En engi þeirra vildi þar eftir fara.”
(Úr Þórðar sögu kakala)
Eiðfaxi 5.tbl. 2003