Þjónustulipur yfirdýralæknir gengur misjafnlega rösklega til verks eftir því, hvort mengun er þjóðleg og íslenzk eða óþjóðleg og útlenzk. Hann ofsækir ímyndaða salmonellu frá Svíþjóð og Hollandi og heldur verndarhendi yfir áþreifanlegri og innlendri salmonellu.
Íslenzk matvælafyrirtæki sunnan og norðan fjalla og austan og vestan eru vaðandi í salmonellu. Þótt niðurstöður mælinga séu aftur og aftur hinar sömu, fá fyrirtækin vinsamleg áminningarbréf, en mengaður reksturinn heldur áfram eins og ekkert hafi í skorizt.
Ástandið í íslenzkri matvælaframleiðslu er lakara en í nágrannalöndunum. Orsökin er einfaldlega óvenjulega mikill sóðaskapur Íslendinga, sem nota ár og skurði fyrir skolpræsi og bera úrgang sinn á opna hauga. Um þetta hafa verið ótal dæmi í fréttum allra síðustu árin.
Fræg er mengunin í Rangá frá Hellu og akstur saurs um Hvolsvöll, svo og langvinn mengun í eyfirzkum kjúklingum. Og nú eru það sviðin frá Selfossi. Allt byggist þetta á því, að við höfum of litla tilfinningu fyrir nauðsyn þess að umgangast náttúruna af gætni og virðingu.
Þess vegna er mengunin orðin að hluta íslenzkrar náttúru. Fuglar komast í opna mengun frá mannabyggðum og koma henni í hringrás, sem lendir í afurðum landbúnaðarins á borði neytenda. Opinberir eftirlitsaðilar senda mönnum síðan vinsamlegar ábendingar.
Sem dæmi um kerfið má nefna, að hagsmunir landbúnaðarins hafa ráðið því, að ekki er skylt að hafa rotþrær við sveitabæi, þótt skylt sé að hafa þær við sumarbústaði. Þetta er gert til að lækka stofnkostnað í landbúnaði, en leiðir til víðtækrar mengunar um land allt.
Hagsmunir landbúnaðarins og einkum þó vinnslustöðva landbúnaðarins ráða því einnig, að mengaður rekstur er ekki stöðvaður og að yfirdýralæknir er látinn eyða tíma sínum í ofsóknir gegn ímyndaðri mengun í innfluttum matvælum í kjölfar GATT-samkomulagsins.
Ofan á linkind við mengun í landbúnaði og vinnslu búvöru bætist linkind í garð sveitarstjórna, sem vilja verja fjármunum sínum til annars en mengunarvarna. Grátbroslegt dæmi er Hveragerði, sem kallar sig heilsubæ, en ber ábyrgð á einna menguðustu á landsins.
Útbreiðsla mengunar í náttúru landsins kemur ekki aðeins fram á borðum íslenzkra neytenda. Hún kemur líka fram í útflutningsafurðum okkar, svo sem í fiskimjöli. Ástandið getur hæglega leitt til verulegs hnekkis í langtímahagsmunum útflutningsatvinnuvega.
Bjartsýnir menn eru að reyna að gera íslenzkt vatn að söluvöru. Ef útlendingar komast að raun um, hveru mikill er sóðaskapurinn í náttúru Íslands, er hinni nýju atvinnugrein stefnt í voða. Sama er að segja um tilraunir til að selja lífræna búvöru frá Íslandi.
Andvaraleysið kemur meðal annars í ljós hjá Hollustuvernd. Hún er dæmigerð skriffinnskustofnun, sem kemur litlu í verk. Hún sér til dæmis ekki um, að innlend neyzluvara sé rétt merkt á sama hátt og innflutt neyzluvara. Þetta má sjá af vörum, sem eru hlið við hlið í búðum.
Hér á landi eru mengunarvarnir og hollustuvernd innantóm hugtök, sem höfð eru að yfirvarpi þjónustulipurðar við innlenda hagsmunaaðila og notuð til að hindra innflutning eða spilla götu hans. Þetta er farið að koma okkur í koll og mun valda okkur meiri vandræðum.
Við skulum fara að byrja að læra stafrófið í umgengni við umhverfi okkar. Það er eina leiðin til að reyna að tryggja framtíð innlendrar matvælaframleiðslu.
Jónas Kristjánsson
DV