Bandaríski herinn er að undirbúa brottför frá Afganistan. Donald Rumsfeld stríðsráðherra ætlar að lýsa yfir sigri og flýja með skottið milli fótanna. Brezki herinn ætlar að taka við vandræðunum með 4.800 hermönnum til viðbótar og aðstoð frá Atlantshafsbandalaginu, þar á meðal frá Íslandi.
Ástandið í Afganistan er að flestu leyti verra en það var fyrir innrás engilsaxa. Uppskera eiturlyfja er mörgum tugum sinnum meiri en hún var á valdatíma talíbana. Kvenréttindi eru nánast engin eins og þá. Stríðsherrar ráða lögum og lofum um nærri land allt og sitja þar að auki á þjóðþinginu.
Að forminu til stjórnar leppur Bandaríkjanna, Hamid Karazi, en hefur engin völd nema sums staðar í höfuðborginni. Völd hans ná til dæmis ekki til Kjúklingastrætis, þar sem íslenzkir gervihermenn voru sprengdir, þegar þeir voru að vernda teppakaup herforingja, sem síðan var kallaður heim.
Enginn getur rökstutt, hvernig 4.800 brezkir hermenn eiga að hafa stjórn á neinu í Afganistan. Bretar hafa gamla reynslu heimsveldis af, að slíkt er ófært með öllu. Þeir geta ekki knúið bændur í Afganistan til að láta af uppskeru, sem er eina lifibrauðið. Ætla þeir að borga bændum til að hætta?
Atlantshafsbandalaginu er stjórnað af Bandaríkjunum. Leppur þeirra var til skamms tíma Robertson lávarður og er nú Jaap de Hoop Scheffer. Þeir fylgja báðir bandarískri stríðsstefnu og reyna að draga treg Evrópuríki inn í styrjaldarævintýri í þriðja heiminum, fyrst í Afganistan og síðan í Írak.
Brezka stjórnin gerir allt, sem sú bandaríska segir henni að gera. Þess vegna mun Bretland sitja með vanda Afganistans í kjöltunni, þegar bandaríski herinn flýr burt á næsta ári. Forstjóri NATÓ er farinn að reyna að fá ríki bandalagsins til að létta undir með Bretum. Senn verður kallað á Ísland.
Afskipti Breta og Atlantshafsbandalagsins af Afganistan eru tóm vitleysa, enda er átakasvæðið kallað Langtburtistan, langt utan formlegs verksviðs NATÓ. Þar að auki er stefna styrjalda við þriðja heiminn vonlaus aðgerð, sem er að reka Bandaríkin á flótta fyrst frá Afganistan og næst frá Írak.
Verst er, að Ísland skuli vera flækt inn í skandalinn með því að senda gervihermenn. Á næsta ári verða þeir enn meira skotmark heimamanna, sem munu losa sig við allt útlent pakk.
DV