Íslendingar eru mestu hugbúnaðarþjófar Evrópu næst á eftir Grikkjum. Það segir Business Software Alliance, sem berst gegn slíkum þjófnaði. Samkvæmt samtökunum stelum við helmingnum af hugbúnaði, sem við notum. Fylgir öðru siðleysi þjóðarinnar, að við séum þjófóttari en flestir aðrir Evrópubúar. Það rímar við þá trú margra, að þeir megi verða ofsaríkir á bankafléttum á borð við kúlulán. Jafnvel stórpólitíkusar eru ekki lausir við slíka græðgi. Við kennum útlendingum um vandræði okkar, til dæmis Bretum um IceSave. Engin furða, þótt við séum í flokki með Grikkjum, sem líka settu sig á hausinn.