Íslenzk hystería

Punktar

Þjóðin hefur ekki hafnað klámi og Alþingi hefur ekki hafnað klámi. Eftir hysteríuna hjá þjóð og þingi vegna skemmtiferðar klámiðnaðarfólks er staða kláms á Íslandi nákvæmlega hin sama og áður. Ekkert hefur breyzt. Klám er enn inni á gafli hjá hverjum, sem hafa vill. Við erum klámvædd

Íslenzkir bændur geta eftir sem áður gist í afsláttarferðum á Radisson hóteli sínu og gegn smárri greiðslu horft á klámmyndir í sjónvarpinu í vetrarfríi. Ég get horft á linnulausa klámrás í sjónvarpinu. Allir geta keypt klámblöð hjá klámvæddri benzíneinokun. Og gleymið ekki spólunum.

Klámvætt sukkríki

Hysterískir þingmenn á borð við Össur Skarphéðinsson og Hjálmar Árnason geta valið um súlustaði til að heimsækja. Hysterískir bæjarstjórar á borð við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson geta valið um verzlanir, sem selja klámdót. Geiri í Goldfinger er einn af vinsælustu Íslendingum nútímans.

Inn í þetta sukkríki klámsins, inn í klámvætt Ísland, ætlaði erlent klámiðnaðarfólk að fara í skemmtiferð. Það ætlaði ekki að eðla sig á torgum borgarinnar, heldur skoða Gullfoss og Geysi eins og hverjir aðrir túristar. Og hin hysteríska íslenzka þjóð fékk samstundis taugaáfall.

Linnulaus hræsni

Þingmenn runnu strax á lyktina. Upp rann hefðbundin hystería, þar sem engin skynsemi fær neitt við ráðið. Menn görguðu hver í kapp við annan, gengu af göflunum í ræðustóli á Alþingi. Allir málsaðilar urðu sér til skammar, frá kjósendum yfir í þingmenn, nema ýmis samtök, sem voru sjálfum sér samkvæm.

Við skulum láta liggja milli hluta, að klám skaðar. Við skulum bara líta á hræsnina, sem felst í að leyfa linnulausan rekstur á klámi í landinu og amast jafnframt og samtímis við, að útlent klámiðnaðarfólk fái að gista hér á bændahóteli og fara í skemmtiferð til Gullfoss og Geysis.

Birgjar hittast

Um daginn voru þrjátíu þúsund manns á klámkaupstefnu í Las Vegas. Í BBC kom fram, að heildartekjur kláms þar í landi nemi 12-20 milljörðum dollara. Fagið sé stærra en kvikmyndabransinn og stærra en íþróttir samanlagðar. Fjórar klámkvikmyndir eru framleiddar á degi hverjum vestanhafs.

Þannig er klámið þungavigtargrein í Bandaríkjunum. Vestur-Íslendingar hafa látið að sér kveða á þessu sviði. Greinin sér Íslendingum fyrir klámi, sem flæðir viðstöðulítið til landsins. Enda er það tæpast neðanjarðarhagkerfi, þegar þrjátíu þúsund manns mæta feimnislaust á kaupstefnu í klámi.

Miðaldaþorp nútímans

Hysteríur Íslendinga eiga sér ekki hliðstæður hjá vestrænum þjóðum. Við höfum lesið um slíkar hysteríur í afskekktum þorpum á fyrri tímum, til dæmis nornaveiðum og gyðingaofsóknum. Það er þessi frumstæði eiginleiki miðaldaþorpsins, sem enn sést á ferð í nútímaþjóðfélagi Íslendinga.

Svei allri þessari hysteríu, svei kjósendum og þingmönnum. Öll þjóðin með Alþingi í broddi fylkingar hefur orðið sér til skammar. Nú er ekkert hægt að gera í stöðunni en að banna klámið, loka fyrir tímarit og spólur, súlustaði og hótelklám, klámrásir og Geira í Goldfinger.

Ekkert breytist

Það munu hinir hysterísku kjósendur og þingmenn samt ekki gera. Þegar rykið sezt aftur eftir ólætin, mun allt falla í eðlilegan farveg hjá þjóð, sem er svo meðtekin af hræsni, að henni er fyrirmunað að sjá, hversu hlægileg hún er sjálf. Kannski verður þó skrúfað fyrir klámmyndir á bændahótelinu.

Ég er ekki að lasta þá, sem eru sjálfum sér samkvæmir í öllum greinum þessa máls. Bara að benda þeim á, að þeir hafa ekki haft neinn sigur.

Jónas Kristjánsson

DV