Íslenzk “nomenklatura”

Greinar

Stéttleysið gamla og margrómaða er á undanhaldi í fámennu þjóðfélagi okkar. Bilið milli hinna bezt settu og hinna verst settu er alltaf að aukast. Þetta kemur greinilegast fram í launamun, sem er orðinn mikill og fer ört vaxandi, þrátt fyrir tilraunir til andófs.

Einstæð móðir, sem reynir að sjá börnum sínum farborða við ræstingar, fær 40.000 krónur á mánuði sem Sóknarkona. Ráðherrann, sem hún skúrar fyrir, fær um og yfir 500.000 krónur á mánuði. Hæst launaði ráðherrann hefur tekjur á við fjórtán Sóknarkonur.

Lágmarkslaun í þjóðfélaginu eru fyrir löngu orðin skammarlega lág. En fjórtánfaldur launamunur stríðir ekki aðeins gegn siðgæðisvitund. Hann er einnig óhagkvæmur fyrir þjóðfélagið. Það hefnir sín um síðir, ef þjóðfélagið klofnar í yfirstétt og undirstétt.

Ábyrgðin hvílir þyngst á herðum stjórnmálamanna, sem geta ekki hamið fjárgræðgi sína. Í fjármálaráðuneytinu eru menn núna önnum kafnir við að framleiða reglugerð, sem hlífi ráðherrum við að greiða sömu hlunnindagjöld af bílum og aðrir forstjórar greiða.

Í DV í dag er fjallað um mikilvæga hlið á klofningi þjóðarinnar í betur og lakar setta. Lífeyrisgreiðslur til gamalla félaga í stéttarfélögum eru ákaflega misjafnar. Sumir fá á ævikvöldinu 14.700 krónur á mánuði úr lífeyrissjóði, meðan aðrir fá 227.000 krónur á mánuði.

Mestur er munurinn milli þeirra, sem starfað hafa á almennum vinnumarkaði og hinna, sem hafa starfað hjá hinu opinbera. Venjulegir lífeyrissjóðir ramba á barmi gjaldþrots, enda er meginstefna verkalýðsfélaga í kjarasamningum, að vextir sjóðanna séu sem lægstir.

Venjulegir lífeyrissjóðir úti í bæ geta ekki skattlagt þjóðina til að brúa bilið milli greiðslugetu sinnar og sómasamlegs lífeyris. Þannig fær fyrrverandi Dagsbrúnarmaður ekki nema 14.700 krónur á mánuði úr lífeyrissjóði, þegar hann hefur náð fullum réttindum.

Ríkið skattleggur hins vegar þjóðina í heild til að brúa bilið milli greiðslugetu lífeyrissjóðanna, sem eru á þess vegum, og þess, sem embættismenn og stjórnmálamenn telja sómasamlegan lífeyri. Fyrrverandi ríkisstarfsmaður fær 35.000 til 70.000 krónur á mánuði.

Stjórnmálamennirnir hafa svo í skjóli aðstöðu sinnar búið til sérstakar reglur fyrir sig sem yfirstétt. Alþingismenn safna lífeyrisréttindum tvöfalt hraðar en aðrir og safna rétti til 95.400 króna á mánuði á sama tíma og Dagsbrúnarmaðurinn nær 14.700 króna rétti.

Enn meiri eru sérréttindi ráðherra, sem safna lífeyrisrétti sex sinnum hraðar en venjulegt fólk. Þeir ná 130.000 króna rétti. Ef þeir láta veita sér pólitískt bankastjóraembætti, ná þeir rétti til 277.000 króna lífeyris á mánuði. Útreikningar á þessu birtast í DV í dag.

Tekjuskiptingin í þjóðfélaginu, hlunnindaskiptingin og lífeyrisskiptingin minnir í mörgu á Austur-Evrópu, þar sem svokölluð “nomenklatura” lætur önnur lög gilda um sig en annað fólk. Munurinn er hins vegar sá, að þar er verið að breyta ástandinu, en ekki hér.

Við búum við frjálsa fjölmiðlun, sem er nýtt fyrirbæri í Austur-Evrópu. Hér hefur spillingin mörgum sinnum verið nákvæmlega kortlögð á prenti og í ljósvakamiðlum. Samt er lítið sem ekkert gert í málunum, og það er auðvitað sljóleika kjósenda að kenna.

Í okkar opna þjóðfélagi er hægt að draga úr stéttaskiptingu, ef kjósendur kæra sig um. Því miður finnst þeim málið ekki nógu brýnt til að taka til sinna ráða.

Jónas Kristjánsson

DV