Íslenzk stefna í Kreml

Greinar

Tilraunir stjórnvalda í Sovétríkjunum og víðar austan tjalds til viðreisnar efnahags eru dæmdar til að mistakast. Gorbatsjov og stuðningsmenn hans hefðu betur kynnt sér málin á Íslandi áður en þeir tóku upp svipaða Framsóknarstefnu og íslenzkar ríkisstjórnir stunda.

Skiljanlegt er, að ráðamenn í Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra, svo og í Kína, horfi öfundaraugum til auðsöfnunar Vesturlanda og vilji notfæra sér brot af reynslunni að vestan. En það dugar bara ekki til árangurs að taka bara lítinn hluta hins vestræna hagkerfis.

Velgengni auðmagnsstefnunnar stafar af notkun sjálfvirkrar markaðstækni í stað tilskipana stjórnvalda. Stefnan nær ekki árangri, nema verð á vörum, þjónustu og fjármagni fái að mótast í samræmi við hin köldu markaðsöfl, sem koma í stað hlýju Stóra bróður.

Ef hagspekingar Gorbatsjovs hefðu lagt leið sína til Íslands, hefðu þeir komizt að raun um, að miðstýring hagkerfisins leiðir til fátæktar. Þeir hefðu séð, að handafl stjórnvalda er ekki fært um að skipuleggja gengi peninga, vaxtahlutfall og aðra mælikvarða á verðgildi.

Þeir hefðu líka kynnzt hér á landi viðamikilli samvinnuhreyfingu, sem er að veslast upp í hlýjunni hjá stjórnvöldum, er hafa haft hana að gæludýri í fjölmarga áratugi. Þeir hefðu séð, að samvinnufélög eru ekki hagkvæma leiðin til að leysa ríkisbú af hólmi.

Hins vegar er gaman fyrir Íslendinga að fylgjast með viðreisnartilraunum sérfræðinga Gorbatsjovs. Það gæti orðið tilefni veðmála að þrátta um, hvenær hagfræði hans og Steingríms Hermannssonar mætast á miðri leið og hvort sá fundur hafi raunar þegar átt sér stað.

Þótt ráðandi stjórnmálaöfl á Norðurlöndum kenni sig við félagshyggju, er deginum ljósara, að í fjármálum og hagkerfi þeirra ríkir markaðshyggja og aðrar undirstöður auðmagnsstefnunnar. Ísland er á þessu svæði eina landið, sem neitar sér um hin arðbæru þægindi.

Á Norðurlöndum hafa menn sætzt á þá niðurstöðu, að auðmagnshyggjan sé notuð til að magna verðmætaframleiðsluna og félagshyggjan sé síðan notuð til að dreifa dálitlu af réttlæti út um þjóðfélagið. Í þessari sátt fær auðmagnshyggjan að njóta sín á sviði peninganna.

Reynslan sýnir, að ekki dugir að blanda saman stjórntækjum, sem er handstýrt að ofan, og sjálfvirkri markaðsstýringu. Steingrímur og Gorbatsjov eru báðir smám saman að staðfesta þetta enn einu sinni. Skárra er að hafa algera miðstýringu og bezt að hafa hana alls enga.

Það er Framsóknarstefnan, sem er til vandræða í þessu samhengi. Þess vegna er þjóðarhagur á niðurleið í Sovétríkjunum og á Íslandi, en í miklum uppgangi í öllum vestrænum ríkjum, sem forðast millileið hafta, kvóta, búmarks, fastgengis, lágvaxta og sjóðakerfis.

Ekki er nóg fyrir Gorbatsjov að hvetja ríkisfyrirtæki og samvinnufyrirtæki til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og starfsfólk til að hætta að drekka og fara að vinna. Ef verðkerfi markaðarins er ófullkomið, vantar sjálfhreyfiaflið, sem veldur velgengni auðmagnsstefnunnar.

Engan varðar um, þótt Íslendingar stundi þá sjálfspyndingastefnu að kjósa yfir sig Hina leiðina. Hitt markar söguleg tímamót, ef hliðstæð stefna í Sovétríkjunum veldur vonbrigðum fólks þar eystra og rótleysi fer að magnast af þeim völdum, með óræðum afleiðingum.

Áður en Ísland á austurleið mætir Sovétríkjunum á vesturleið væri gott, að miðstýrimenn okkar kynntu sér bölið, sem Hin leiðin er að baka Sovétmönnum.

Jónas Kristjánsson

DV