Íslenzk stöð á heiðinni

Greinar

Keflavíkurflugvöllur er ekki á skrá, er birzt hefur í bandarískum dagblöðum um nokkra tugi bandarískra herstöðva heima og erlendis, sem til greina kemur að leggja niður eða minnka. Þetta endurspeglar, að völlurinn á heiðinni er ekki herstöð í hefðbundnum skilningi.

Lítið er um varnir á Keflavíkurflugvelli. Tómt mál er að tala um, að þar sé varnarlið Íslands. Að vísu eru til ráðagerðir um að flytja þangað hermenn að vestan á hættutímum. Æfingar af því tagi hafa reitt suma landa okkar til reiði og verið öðrum tilefni gamanmála.

Foringjar heimsveldanna tveggja hafa að undanförnu keppt í tillögum um samdrátt herja sinna í Evrópu. Nýjasta tillaga George Bush Bandaríkjaforseta er um fækkun niður í tæplega 200 þúsund hermenn á hvora hlið. Þessu hefur verið afar vel tekið í Sovétríkjunum.

Í rauninni eru heimsveldin búin að missa tök á þróuninni. Nýjar ríkisstjórnir í Austur-Evrópu eru sem óðast að senda Sovétríkjunum skilaboð um, að hernámslið þeirra eigi að fara heim sem fyrst. Ekki verður séð, að Sovétríkin ætli neitt að tregðast við brottför.

Þar á ofan eru hinar nýju ríkisstjórnir í Austur-Evrópu að boða samdrátt í eigin herafla. Ungverjaland hefur boðað 17% samdrátt, Tékkóslóvakía 15%, Búlgaría 12%, Austur-Þýzkaland 10% og Pólland 4%. Þetta er byrjunin á hröðu andláti Varsjárbandalagsins.

Nokkur Evrópuríki Atlantshafsbandalagsins eru þegar byrjuð að skipuleggja svipað undanhald á sviði vígbúnaðar. Belgía varð fyrst til og reiknað er með, að Holland og Danmörk fylgi fljótlega á eftir. Öllum ríkisstjórnum bráðliggur auðvitað á peningunum í annað.

Stærsta málið í hruni vígbúnaðar er svo sameining Þýzkalands. Greinilegt er, að Austur-Þýzkaland er að sogast inn í Vestur-Þýzkaland. Það þýðir, að sovézki herinn verður að fara frá Austur-Þýzkalandi og sennilega bandaríski herinn einnig frá Vestur-Þýzkalandi.

Bush og Gorbatsjov verða að hafa sig alla við í símtölum um ný tilboð til að hafa undan þróun, sem þeir ráða ekki við. Sameinað Þýzkaland verður að vísu ekki hlutlaust, heldur vestrænt. En það mun haga málum á þann veg, að ekki verði túlkað sem ógnun við austrið.

Einu herstöðvarnar, sem eiga framtíð fyrir sér, eru eftirlitsstöðvar. Búast má við, að fjölþjóðlegir samningar um niðurskurð vopnabúnaðar feli í sér ströng ákvæði um gangkvæmt eftirlit með efndum. Slíkt verður talið líklegt til að auka hernaðarlegt öryggi Evrópu.

Málsaðilar þurfa að mæla flutninga með herlið og hergögn og aðrar hreyfingar, sem hugsanlega gætu boðað hættu. Þeir þurfa að hafa eftirlitsmenn hver hjá öðrum til að fylgjast með heræfingum og ennfremur með umsaminni eyðingu vopna og fækkun í herjum.

Reikna má með, að eftirlitsstöð á borð við Keflavíkurflugvöll eigi framtíð fyrir sér í heimi hernaðarlegrar hláku. Þar hefur verið fylgzt með ferðum hernaðartækja í lofti, á sjó og í sjó. Slíkt eftirlit verður sennilega talið alveg eins nauðsynlegt í náinni framtíð.

Hins vegar er líklegt, að framkvæmd eftirlitsins geti breytzt. Til dæmis kemur til greina, að samið verði um, að þar verði fulltrúar Sovétríkjanna til eftirlits með eftirliti Bandaríkjanna. Einnig opnast betri möguleikar en áður á þátttöku og frumkvæði af hálfu Íslands.

Bezt væri, að Íslendingar tækju smám saman við sem mestu af því eftirliti, sem hernaðarlegir hagsmunaaðilar telja hæfilegt á Norður-Atlantshafi í framtíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV